Alþjóðlegt meistaramót rafbíla haldið á Íslandi

16.5.2018

Ein umferð FIA eRally fer fram á Íslandi í september 2018

Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) hefur gengið frá samningum við Alþjóða aksturssambandið (FIA) þess efnis að ein umferð í alþjóðlegu meistaramóti rafbíla FIA í nákvæmnisakstri, oft kallað eRally (FIA Electric and New Energy Championship), verði haldið á Íslandi í september á þessu ári.

,,Það kom okkur skemmtilega á óvart hve mikill áhugi reyndist vera á því hjá FIA að Ísland héldi eina umferð í meistaramóti rafbíla.  Þegar samkomulag var loks í höfn var það okkur sannarlega mikil gleði, enda notkun rafbíla, orkuskipti í samgöngum og þær hliðarverkanir sem það kann að leiða af sér ofarlega á baugi á Íslandi um þessar mundir og raunar í heiminum öllum” sagði Tryggvi M Þórðarson formaður AKÍS.

Frá því að fyrstu hugmyndir komu fram og þar til staðfest samkomulag lá fyrir liðu aðeins fimm mánuðir, sem telst ótrúlega stuttur tími.  Aðeins eru 10 umferðir í mótaröðinni og margir keppnishaldarar um hituna. ,,Þetta er spennandi verkefni og áhugavert að koma Íslandi á kortið sem land með hreina orku og að AKÍS og aðildarfélögum okkar sé treyst fyrir svona stórri keppni” segir Þrándur Arnþórsson framkvæmdastjóri AKÍS.

Þessi rallykeppni er ekki eins og þær sem Íslendingar hafa vanist. eRally byggir á nákvæmnisakstri fyrirfram ákveðna leið, ávallt innan hámarkshraða á óbreyttum bifreiðum.  Á leiðinni eru mælistaðir þar sem bíllinn þarf að vera staddur á nákvæmlega réttri sekúndu annars missa keppendur stig.

Það er sannarlega í mörg horn að líta þegar kemur að viðburði sem þessum og hefur AKÍS gengið frá samningum við viðburðafyrirtækið Sonus Viðburði um að koma að undirbúningnum. ,,Ég var strax mjög spenntur fyrir verkefninu þegar þeir AKÍS félagar höfðu samband og þegar þeir útskýrðu þetta betur fékk ég gæsahúð af spenningi” segir Bessi Theodórsson eigandi Sonus Viðburða. ,,Það sem ég sá strax í þessu er að hér hefur Ísland frábært tækifæri til að halda stöðu sinni og jafnvel styrkja hana þegar kemur að því að vera leiðandi land í orkuskiptum í samgöngum. Það segir sig sjálft að keppni sem þessi á að vera hér á landi, við með alla okkar hreinu, ódýru og endurnýjanlegu orku. Ég var í rauninni örlítið hissa á því að þessi keppni hafi ekki verið haldin hér áður. En núna er þetta að verða að veruleika og það er mjög jákvætt. Ég og mitt fyrirtæki mun koma að utanumhaldi á þessum viðburði í heild og það er sannarlega verðugt verkefni. Ég held hreinlega að þetta sé með stærri viðburðum sem við höfum komið að. AKÍS menn munu sjá um rallið sjálft enda hafa þeir áralanga reynslu af slíku keppnishaldi. Sonus mun, eins og áður segir, sjá um undirbúning að öðru leiti. Það gefur auga leið að þessum fjölda keppenda, fjölmiðlamanna, áhorfenda og aðstandenda þarf að sinna vel. Sem og kynning á verkefninu. Þetta verður viðburður sem mun vekja athygli á heimsvísu.”

Samhliða keppninni stendur til að halda ráðstefnu um hvert stefnir í orkuskiptum í samgöngum hérlendis, hver eru hagræn áhrif þeirra skipta á breiðum grunni, hver eru umhverfisáhrifin bæði jákvæð og neikvæð.

Verið er að leggja drög að því að hingað til lands komi á sama tíma ökutæki sem sýnir hversu langt má teygja tæknina þegar rafmagn er annars vegar, en meira um það síðar.

Í tengslum við eRally á Íslandi verður haldin forkeppni til að finna íslenska afburðaökumenn sem gætu keppt fyrir Íslands hönd í öllum umferðum eRally um allan heim. Áhugasamir ökumenn og konur þurfa að ekki að hræðast ,,rafbílinn” í þessari forkeppni. ,,Við erum að leita að mögulegum fulltrúum Íslands til að taka þátt í eRally og þá um allan heim. Allir geta sótt um að keppa í forkeppninni og þarftu ekki að vera endilega á rafbíl, þarna er um aksturshæfileika að ræða”.

Undirbúningur hófst síðasta haust og hefur verið unnið hratt síðan og stóra verkefnið þessa dagana er að ræða við áhugasama samstarfsaðila. Margir hafa sýnt verkefninu áhuga og vilja fá að vera með. ,,Mögulega ættum við ekki að vera hissa á áhuganum, verkefnið er spennandi og fjöldi aðila sem hafa tengingu við viðburð af þessu tagi hafa haft samband og óskað eftir að vera með” segir Bessi Theodórsson að lokum.

Viðburður eins og þessi dregur auðvitað að fjölda keppenda hvaðanæva að úr heiminum, en einnig starfsmenn bílaumboða, fjölmiðlafólk ásamt stjórnendum í orkugeiranum og ýmissa annara sem tengjast þessu á einn eða annan hátt. Gestir sem munu koma til landsins til að fylgjast með keppninni og auðvitað funda og sitja ráðstefnur sem fyrirhugaðar eru í tengslum við viðburðinn.

Samhliða keppninni stendur til að halda ráðstefnu um hvert stefnir í orkuskiptum í samgöngum hérlendis, hver eru hagræn áhrif þeirra skipta á breiðum grunni, hver eru umhverfisáhrifin bæði jákvæð og neikvæð.

"Svo er gaman að AKÍS og FIA munu vinna náið með alþjóðlegu orkuráðstefnunni CHARGE sem verður haldin verður á Íslandi samhliða keppninni. Það verður því sannkölluð rafmagnsbíla veisla á Íslandi".

Lang áhrifaríkast fyrir áhugasama er að hafa samband með tölvupósti við Akstursíþróttasamband Ísland erally@akis.is