Fjörutíu ár eru liðin frá því að fyrsti rallkappakstur var haldinn á Íslandi og þess ætlar Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur að minnast með rallsýningu samhliða ralli sem fram fer um helgina.
Sýningin fer fram á Korputorgi en þar verður hægt að skoða ýmis keppnistæki sem tekist hefur að varðveita á þessum 40 árum sem og ýmsa af nýjustu og öflugustu rallakstursbílum landsins.
Nokkrir gamlir og góðir rallökumenn verða á svæðinu, svo sem Ómar Ragnarsson, Rúnar Jónsson og Daníel Sigurðsson, svo einhverjir séu nefndir.
Sýningin verður opin á föstudag, 25.september, frá klukkan 19 en það kvöldið mæta gamlir rallarar og segja frægðarsögur af rallakstrinum í gegnum tíðina. Sýningin heldur áfram á laugardagsmorgun klukkan 10 og stendur fram til klukkan 19.
Klukkan 10 að morgni næstkomandi laugardag hefst svo rallið sjálft en í því verður keyrt um Skjaldbreiðarveg og Uxahryggi í nágrenni Þingvalla. Keppandur safnast saman á Korputorgi um 16:30 fyrir utan sýningarhúsnæðið, en þar fer verðlaunaafhending fram.
Um helgina gætu úrslit Íslandsmeistaramótsins ráðist, en nánari upplýsingar um rallið má finna á heimasíðu Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur.