Úrskurður: Agamál á Bíladögum á Akureyri 2016

7.12.2016

Aga- og úrskurðarnefnd AKÍS hefur nú gefið út úrskurð vegna hegðunar nokkurra keppanda á Bíladögum á Akureyri 2016. Fimm keppendur sem staðfest er að hafi hringspólað á götum Akureyrar að næturlagi og raskað þar með næturró íbúa og valdið íþróttinni skaða eru látnir sæta agaviðurlögum sem ákvarðast sem keppnisbann er taki til allra keppnisgreina á Bíladögum á Akureyri 2017.

Eitt af grundvallarmarkmiðum akstursíþróttastarfs á Íslandi er að útrýma hraðakstri af götunum og koma inná sérstök svæði ætluðum til akstursíþrótta. Svæði sem hafa leyfi lögreglu og eru undir eftirliti starfsmanna með tilheyrandi þekkingu og reynslu.

Keppendur í akstursíþróttum hafa sérlega ríkar skyldur gagnvart hegðun í almennri umferð og ber að sýna gott fordæmi. AKÍS vill eiga góð samskipti við yfirvöld löggæslu og sveitarfélaga til að heimildir fáist fyrir að halda blómlegu akstursíþróttastarfi gangandi.

Því miður tóku nokkrir einstaklingar sig til á Bíladögum 2016 á Akureyri og stunduðu hættuakstur á götum bæjarins og ollu þar með vegfarendum hættu ásamt ónæði fyrir íbúa í nærliggjandi húsum.

Þetta gerist þrátt fyrir að nú er komin aðstaða fyrir öruggar keppnir og æfingar í drifti og fleiri akstursíþróttum á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Á Bíladögum í sumar var auk þess fengin sérstök heimild til að hafa svæði BA opið lengur en venjulega og gátu keppendur reynt bíla sína að vild.

Það er von AKÍS að keppendur láti sér þennan úrskurð sér að kenningu verða og hagi akstri í umferð ávallt í samræmi við lög og reglur.

Úrskurð Aga- og úrskurðarnefndar má lesa í heild sinni hér.