Bílaklúbbur Skagafjarðar boðar til Ljómaralls í Skagafirði, laugardaginn 29. júlí nk. Keppnin er sú þriðja í röðinni í Íslandsmótinu og fer fram samkvæmt reglum Akstursíþróttasambands Íslands.
Það er búið að opna skráningu fyrir Ljómarall 2017. í skráningarforminu inná AKÍS birtist keppnisgjaldið sem gjald fyrir einstakling ekki áhöfn, vonandi veldur það ekki misskilningi. Þau gjöld sem greiða skal til AKÍS eiga að bætast sjálfkrafa inn í skráningarfrominu.
Keppnisstjóri: Arnar Freyr Árnason, sími 775 0410.
Aðstoðarkeppnisstjóri: Árni Gunnlaugsson.
Dómnefnd: Tryggvi Magnús Þórðarson, AKÍS.
Sigríður Alma Ómarsdóttir, AÍFS.
Tobías Freyr Sigurjónsson, BS.
Skoðunarmaður: Sigurjón Árni Pálsson.
Öryggisfulltrúi: Ingvar Guðmundsson.
Stjórnstöð keppninnar, upplýsingatafla og klukka keppninnar.
Stjórnstöð keppninnar verður, eins og undanfarin ár, staðsett í norðurenda húsnæðis N1 við Ártorg á Sauðárkróki. Þar verða upplýsingar birtar á meðan á keppni stendur.
Upplýsingar fram að keppni verða birtar á facebook síðu Bílaklúbbs Skagafjarðar.
Ástæða er til að hvetja alla til að stilla klukkur sínar eftir opinberu tímatali í Höfuðborg Íslands sem fram kemur á vefslóðinni https://time.is/
Skráning
Skráning hefst við birtingu dagskrár, sunnudaginn 9. júlí og lýkur kl. 23:59 mánudaginn 24. júlí nk.
Skráning skal fara fram í gegn um skráningarvef á www.akis.is.
Keppnisgjaldið er kr. 35.000. Að auki þurfa keppendur að greiða kr. 1.000 á hvern keppanda fyrir keppnisskírteini AKÍS. Þeir sem eru að keppa í fyrsta sinn á þessu keppnistímabili þurfa hins vegar að greiða kr. 5.000 á hvern keppanda, fyrir keppnisskírteinið og er þá innifalin sérstök trygging frá AKÍS. Sjá má nánar um þetta á vef AKÍS www.akis.is/umsoknir/verdlisti/
Engin starfsmannakvöð er í þessari keppni. Ábendingar um fólk sem gæti viljað starfa við keppnishaldið eru þó einkar vel þegnar og má koma á framfæri við keppnisstjóra.
Sérleiðir, leiðaskoðun og ofurleið
Sérleiðir keppninnar verða eknar um Mælifellsdal, Vesturdal og Nafir, skv. meðfylgjandi tímaáætlun sem þó er hér birt með fyrirvara um ófyrirsjáanlegar breytingar.
Vekja verður athygli á því að vegurinn um Vesturdal er breyttur á kafla meðfram ánni sem rennur um dalinn, skömmu eftir að ekið er yfir óbrúað vatnsfall á leiðinni. Þeir sem hafa farið leiðina í fyrri keppnum eða ætla að nota leiðarnótur frá fyrri árum, þurfa að gæta að þessu sérstaklega. Búið er að gera vegslóða í stað þess kafla sem hvarf í vetur og merkja leiðina með stikum. Keppendur eru beðnir að halda sig við merkta ökuleið.
Skoðun sérleiða er óheimil nema með þeim hætti sem hér greinir:
Frá og með sunnudeginum 16. júlí nk. verður búið að merkja upphaf og endi sérleiða um Mælifellsdal og Vesturdal með litarúða í vegkanti þar sem tímastöðvar verða. Þá opnast fyrir leiðarskoðun. Mega keppendur aka tvær ferðir í hvora átt um viðkomandi sérleið. Leiðaskoðun á keppnisbifreiðum er óheimil. Keppendum ber að tilkynna til keppnisstjóra FYRIRFRAM á hvaða tíma þeir ætli að skoða og númer, gerð og lit þeirrar bifreiðar sem notuð verður til leiðaskoðunar. Keppendum ber án undantekningar að sýna gætni við leiðaskoðun og virða umferðarreglur. Brjóti keppendur gegn þessum fyrirmælum að mati keppnishaldara og/eða dómnefndar verður þeim refsað með eftirfarandi hætti:
Fyrsta brot – 5 mínútur sem bætast við aksturstíma sérleiða í keppninni.
Annað brot – brottvísun.
Einungis má skoða sérleið um Nafir í fylgd keppnisstjórnar, föstudaginn 28. júlí kl. 18:30. Lagt verður af stað í þá leiðarskoðun frá Vörumiðlun á Sauðárkróki.
Power Stage eða Ofurleið í þessari keppni verður Vesturdalur 2, þ.e. síðari ferð um Vesturdal sem ekin er frá suðri til norðurs.
Þeir sem koma að lokuðu hliði í leiðaskoðun verða undantekningalaust að loka því á eftir sér.
Sérleið um Nafir
Sérleið um Nafir liggur innanbæjar á Sauðárkróki. Þá leið má einvörðungu skoða í fylgd keppnisstjórnar, sem fyrr segir. Formlegri tímatöku lýkur þegar keppendur hafa ræst inn á Nafir 2 og það er því ekki hægt að detta út úr keppninni á Nöfum 2 eða ferjuleiðinni að endamarki.
Nafir 2 er gestasérleið og er það góðfúsleg ósk keppnishaldara að keppendur leyfi styrktaraðilum að sitja með þeim ef keppnishaldari óskar eftir því. Fari keppnihaldari ekki fram á að nota sætið, er keppendum heimilt að ráðstafa því að vild. Krafa er þó um að allir sem fara með á gestasérleið noti öryggisbúnað, þ.e. belti, hjálm og keppnisfatnað.
Tímabækur skulu keppendur afhenda við lok sérleiðarinnar Nafir 2 og mæta svo í endamark kl. 17:00 þar sem úrslit verða birt, kærufrestur hefst og loks verður þar verðlaunaafhending.
Öryggisskoðun keppnisbifreiða
Skoðun á öryggisbúnaði keppnisbifreiða fer fram í Reykjavík 26. júlí og á Sauðárkróki 28. júlí. Í Reykjavík verður skoðað hjá Tékklandi í Borgartúni 24. Á Sauðárkróki verður skoðað við Borgarteig 5 þar sem Hendill ehf. er til húsa. Þar verður heitt á könnunni og meðlæti í boði Skagfirsku áhafnarinnar í Tím Úti að aka.
Keppendur eru vinsamlega beðnir að senda keppnisstjóra tölvupóst á netfangið arnarf247@gmail.com og tilkynna hvar þeir ætla að mæta með keppnistæki til öryggisskoðunar – EIGI SÍÐAR EN 25. JÚLÍ KL. 13:00.
Þjónustubifreiðar og merkingar þeirra.
Óskað er eftir því að allar þjónustubifreiðar (service bifreiðar) verði auðkenndar með einföldum hætti þar sem fram komi rásnúmer og keppnislið (ef það er til) þeirrar áhafnar sem þeir tilheyra. Skv. reglum ber þjónustubifreiðum og þeim sem þeim aka að virða umferðarlög og fyrirmæli starfsmanna keppninnar.
Starfsmannafundur vegna keppninnar
Fundur með starfsmönnum er fastur liður í keppnishaldinu. Þar fara starfsmenn yfir hlutverk og staðsetningu hvers og eins og snæða saman léttan kvöldverð. N1 á Sauðárkróki gefur pizzur við þetta tækifæri. Kærar þakkir!
Myndatökur og birtingar
Í reglum AKÍS kemur fram að þeir sem ætli að taka upp myndskeið og dreifa þurfi að sækja um leyfi til AKÍS. Keppnishaldarar geta að auki krafist þess að þeir sem taka ljósmyndir hafi einnig slíkt leyfi. Sjá nánar: https://www.akis.is/motahald/leyfi-til-myndbirtingar-2017/
Bílaklúbbur Skagafjarðar setur engar takmarkmarkanir vegna myndatöku aðrar en þær sem fram koma hjá AKÍS. Ljósmyndarar eru því mjög velkomnir og vert er að hvetja alla til að virða höfundarrétt á verkum þeirra og óska leyfis frá þeim vegna notkunar á myndefni þeirra. Allir fjölmiðlamenn og myndasmiðir verða að sjálfsögðu að virða lokanir og fyrirmæli starfsmanna keppninnar.
Tjaldsvæðið og þjónusta í Skagafirði
Á tjaldsvæðinu á Sauðárkróki verður tekið frá pláss fyrir keppendur og fylgdarlið. Það er fyrirtækið Tjöldum í Skagafirði https://tjoldumiskagafirdi.is/is/ sem er gestgjafi þar. Vinsamlega gangið vel um svæðið og það fólk sem á vegi ykkar verður þar.
Á vefsíðunni http://www.visitskagafjordur.is/ eru ýmsar upplýsingar um gistingu og þjónustu í Skagafirði og þar starfa einnig upplýsingamiðstöðvar sem gjarnan svara fyrirspurnum gesta um ýmsa þjónustuþætti.
Birt 9. júlí 2017