Konurnar bak við myndavélarnar, Guðný Guðmarsdóttir

30.10.2017

Ein þeirra kvenna sem undanfarin ár hefur mundað myndavélar í kringum akstursíþróttir er Guðný Guðmarsdóttir í Borgarnesi. Hún fór fyrst að vinna kringum rallýkeppnir árið 2009 norður í Skagafirði og á árunum sem liðin eru síðan, hefur hún mikið komið að keppnishaldi í rallý sem tímavörður, undanfari og keppnisstjóri. Einnig hefur hún nokkrum sinnum tekið þátt sem aðstoðarökumaður.

Canon myndavélin hefur fylgt Guðnýju á keppnisstaði frá árinu 2011 og hefur hún haldið úti eigin síðu, www.flickr.com/photos/rallystelpa/albums,  þar sem keppendur og aðrir hafa jafn óðum getað skoðað afraksturinn. Allra síðustu ár hefur Guðný einnig reynt fyrir sér við myndatökur í torfærunni með góðum árangri.

Eitt helsta markmið Guðnýjar með myndatökunum er að leggja sitt að mörkum til að auka útbreiðslu og áhuga á akstursíþróttum. Sem lið í því þá skrifaði hún frá árinu 2014 til 2016, fjölda greina og frétta um rallýkeppnir sem birtar hafa verið í fjölmörgum fréttamiðlum ásamt ljósmyndum hennar. Þá hélt hún á sama tíma úti Facebook síðu fyrir keppnislið Baldurs Haraldssonar og Aðalsteins Símonarsonar, TímON rallý. Þar var komið á framfæri margskonar upplýsingum um rallý og náði síðan mikilli útbreiðslu langt út fyrir hóp hefðbundinna akstursíþróttaáhugamanna.