Halldóra Rut: Með fráhvarfseinkenni frá ralli!

5.7.2018

,,Ég vissi ekki að maður gæti fengið fráhvarfseinkenni frá ralli!“

Síðasta sumar birtist nýtt andlit í akstursíþróttunum þegar Halldóra Rut Jóhannsdóttir tók þátt í sinni fyrstu rallkeppni.  Hún er aðstoðarökumaður með bróður sínum Óskari Kristófer. Hafa þau systkinin vakið athygli fyrir góða frammistöðu þrátt fyrir litla keppnisreynslu. Halldóra Rut samþykkti að svara nokkrum spurningum.

Gefum henni orðið.  Ég er fædd þann 31. janúar 1993 og bý í Reykjavík ásamt kærasta mínum og syni. Vinn hjá Orku ehf., þar sé ég aðallega um að díla við tryggingarfélögin, svara í síma og læra nýjungar sem mér datt aldrei í hug að væru svona áhugaverðar.  Ég er mjög hvatvís en líka mikill spekúlerari, hef mikinn áhuga á fótbolta, ferðalögum og ralli auðvitað“. 

 

Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í akstursíþróttum? 

Mín fyrsta keppni, og mitt fyrsta skref í mótorsporti almennt, var Ljómarallið í fyrra, en það var haldið í Skagafirði í lok júlí.   Fram að þeim tíma hafði ég ekkert fylgst með akstursíþróttum. Fjölskyldan hefur heilmikinn bílaáhuga en ég hef alveg látið þetta vera.  Ef bíllinn minn bilar hringi ég í pabba eða bróður minn. Í hreinskilni sagt eru viðgerðir ekki mín sterkasta hlið, ég er pottþétt ekki fyrst á útkallslista ef eitthvað bilar.

 

Hvað varð til þess að þú fórst inn á þann vettvang og hvernig hefur gengið? 

Bróðir minn, Óskar, á allan heiðurinn af því. Hann talaði oft um það við mig, þegar við vorum yngri, hvort við ættum ekki að fara að keppa saman.  Í hvatvísi minni sagði ég alltaf bara “já auðvitað”. Árið 2012 lenti ég svo í alvarlegri bílveltu og við hættum bara að ræða þetta. Í desember 2016 mætti hann svo fyrir utan hjá mér með þennan áberandi gula rallýbíl. Hann þurfti ekki að spyrja mig tvisvar áður en ég hafði knúsað hann og sagt “já - ég er með!”.

Okkur hefur gengið bara ágætlega, höfum oft átt mjög góða spretti, annan eða þriðja besta tíma á sérleiðum.  Svo höfum við líka stundum verið óheppin, lent í einhverju brasi eða verið lengi að ná að vinna almennilega saman. Það var svo núna í lok júní sem við náðum að vinna AB varahlutaflokkinn og enduðum í þriðja sæti yfir heildina í Hamingjurallinu á Hólmavík.

 

Hvernig skiptið þið verkum í rallýliðinu ykkar? Hver gerir hvað? 

Við erum svo heppin að vera með frábært service lið sem er stútfullt af duglegum og klárum strákum.  Þetta eru nánir vinir bróður míns og þeir hjálpa honum að gera bílinn tilbúinn fyrir keppni og halda honum gangandi þar til síðasta flaggið fellur. Virkilega samheldinn og góður hópur.

Ég sé um pappírsmálin, skráningu, prenta út leiðabók og þ.h. og almennt sé ég um að öll skjöl séu til reiðu. Ég redda sponsum, sé um að kaupa í matinn og þ.h. og er svo bara í snatti og snúningum ef eitthvað vantar.

 

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnir? Ertu hjátrúarfull, áttu lukkugrip eða þess háttar? 

Ja, það er helst að ég reyni að undirbúa mig ekki of mikið. Ég reyni að vera tímanlega í öllu til að forðast óþarfa stress.  Það er mikilvægt að ná að halda yfirvegun. Ég forðast kaffi og aðra koffeindrykki í kring um keppnir. Svo reyni ég bara að hafa allt tilbúið sem ég þarf, s.s. að kaupa bækur fyrir nótur, hafa pennaveski, rallýgallann og aukahluti á vísum stað. Svo skoða ég hvort það sé eitthvað sem ég geti gert til þess að létta undan strákunum við þeirra verkefni. Ég treysti liðsfélögum mínum mjög vel og veit að þeir sjá um sinn hluta af undirbúningnum.

 

Hverjir eru þínir helstu styrkleikar sem akstursíþróttamaður? Í hverju ertu best?

Hreinskilni og sjálfsagi. Við Óskar erum mjög dugleg að ræða það sem gengur vel og hvernig við getum bætt okkur. Það finnst mér mjög mikilvægt, bæði til að bæta samband okkar og samstarf og okkur sjálf sem keppendur. Við erum mjög góðir vinir og það ríkir mikið traust milli okkar. Við getum samt stundum verið ósammála en í keppni einbeitum við okkur bara að því að láta allt ganga upp og ná árangri.

Mér finnst sjálfsagi mjög mikilvægur. Ég er með mjög mikið keppnisskap en læt það ekki standa í vegi fyrir mér, reyni að hugsa skynsamlega og velta mér ekki upp úr því hvernig við stöndum í keppninni á hverjum tíma. Mér finnst mikilvægara að keppa við okkur sjálf og gera betur en við gerðum síðast eða halda okkar striki ef allt gengur vel. 

 

Hvað finnst þér erfiðast? Í hverju felast mestu áskoranirnar fyrir þig persónulega? 

Það hefur reynst mér mjög erfitt að læra að gefa mér séns ef ég geri mistök og að halda mér rólegri bæði fyrir keppni og í kringum hana. En það er eitthvað sem er að koma hægt og rólega.

Ég reyni að leyfa hverjum degi að nægja sína þjáningu.

Mín helsta áskorun er að halda einbeitingunni þegar eitthvað truflar, t.d. ef það hefur bíll farið útaf eða einhver er að taka myndir. Þá dett ég stundum út og þarf Óskar til að ná mér tilbaka. 

 

Hvað finnst þér skemmtilegast/leiðilegast að gera þegar kemur að sportinu?

Mér finnst langskemmtilegast þegar maður er á leiðinni inn á fyrstu leið eftir langan mánuð frá keppni, spenningurinn er svo mikill og maður veit stundum ekkert hvað er í vændum.

Leiðilegast er klárlega að þurfa að bíða allan veturinn eftir að fá að keppa aftur, mér datt ekki í hug að ég gæti fengið fráhvarfseinkenni frá ralli en það var sko tilhlökkun og spenningur í allan vetur.  Það getur reyndar verið gott að horfa á incar, ég geri það stundum og fylgist annað slagið með umræðum og svoleiðis. Ég hef hins vegar ekki dottið í að vakta og fylgjast með akstursíþróttum erlendis.

 

Hefur þú einhvern tímann orðið hrædd í tengslum við mótorsportið? 

Já, eða hrædd og ekki hrædd, mér fannst mjög skelfilegt þegar við vorum að keppa í okkar fyrsta ralli og við komum á of miklum hraða inn í einhverja beygju sem varð til þess að við fórum útaf og upp á tvö hjól. En ég er ekkert svo viss um að það myndi hræða mig í dag. Svo var það hræðilegt þegar við fórum útaf í Rallý Reykjavík í fyrra á fyrstu leið og beygðum spyrnu. Ég varð skíthrædd um að við myndum verða úr keppni þar sem við höfðum nánast engan tíma til þess að laga bílinn.   

 

Ertu bílhrædd?

Já mjög. Ef ég er sjálf undir stýri finn ég ekkert fyrir því en ég get verið hræðileg þegar einhver annar er að keyra. Ég verð samt að viðurkenna að ég finn lítið fyrir því þegar ég er í rallýbílnum enda erum við með mjög góðan öryggisbúnað og frábæran bílstjóra sem ég treysti 120%. 

 

Hefur eitthvað komið þér á óvart þegar kemur að sportinu eftir að þú fórst að taka þátt í því?

Já alveg ótrúlega margt. Ég hafði ekki hugmynd út í hvað ég væri að fara þegar ég byrjaði. Það kom mér mjög á óvart hversu margir eru í kringum þetta sport og hvað það er í raun og veru stórt. Þetta var nýr heimur sem opnaðist fyrir mér og ég er mjög þakklát fyrir að fá að vera partur af honum. Svo auðvitað kom það mér mikið á óvart hvað það eru allir hjálpsamir og hversu góður andi er í hópnum. Þó ég geti alveg verið stríðin við mína nánustu er ég frekar feimin.  Hópurinn í kring um rallið er mjög góður, ég hef aldrei lent í neinum með stæla eða leiðinleg skot. Allir hjálpsamir og stemningin er oftast mjög góð.

 

Hvernig finnst þér viðhorfið almennt vera hjá fólki til mótorsports og til þeirra sem stunda það?

Ég hef bara fengið hrós og fundið fyrir góðum viðhorfum. Mér tókst sennilega að koma öllum mikið á óvart en finn bara fyrir hvatningu og stuðningi.

Fólk er mjög forvitið og með margar spurningar sem tengjast bæði sportinu og hvernig maður flæktist út í þetta. Mér finnst samt best þegar fólk spyr hvort maður sé meðvitaður um það hversu hættulegt þetta er. Ég segi nú yfirleitt bara að þetta sé ekki jafn slæmt og þetta lítur út fyrir að vera.   

 

Hvað er það skrautlegasta sem þú hefur lent í, í tengslum við sportið, í keppni og þ.h.?

Ég verð að segja Næturrallið 2017. Ég mætti mjög illa stemmd í þá keppni. Óskar þurfti að hlusta á mig kasta upp allt rallið. Ég veit ekki hversu oft hann bauð mér að við gætum hætt.  Það kom auðvitað ekki til greina. Ég vildi að sjálfsögðu klára keppnina, sem við og gerðum. Enduðum í fjórða sæti með besta tímann á tveim leiðum. Þokkalegt miðað við aðstæður. Þetta kenndi mér hversu mikilvægt er að vera ekki að stressa sig og að mæta róleg til leiks, ná yfirvegun.

 

FIA - Alþjóðaakstursiþróttasambandið er nú með verkefni í gangi sem miðar að því kynna og auka hlut kvenna í akstursíþróttum. Hvernig hefur þín upplifun verið af akstursíþróttum á Íslandi? Finnst þér að konur eiga með einhverjum hætti erfiðara uppdráttar í sportinu? Eru einhverjar sérstakar hindranir og ef svo er hvernig mætti vinna með þeim?

Mín upplifun hefur verið alveg frábær. Mér hefur verið vel tekið og hjálp er til staðar ef maður leitar hennar. Persónulega finnst mér að það sé ekkert sem stendur í vegi fyrir því að við sem konur náum árangri frekar en karlar. Ekkert, nema kannski munurinn á því hvernig stelpur og strákar eru alin upp. Okkur konurnar skortir stundum trúna á því að við náum árangri í íþróttum sem eru samfélagslega stílaðar sem “ætlaðar körlum”.

 

Áttu einhver ráð fyrir fólk sem hefur áhuga á mótorsporti en hefur ekki enn slegist í hópinn, og þá ekki síst verðandi akstursíþróttakonur?

Ef þig langar til þess að gera þetta, gerðu það þá. Mitt mottó hefur alltaf verið: “Take the first step in faith”.  Ef það gengur ekki get ég að minnsta kosti sagt að ég hafi prufað það.

Ef þú hefur áhuga settu þig í samband við einhvern sem hefur verið að keppa og fáðu hann til að leiðbeina þér áfram eða kíktu inná Facebook-síðuna “Rallýáhugamenn” og spurðu. Þú átt ekki eftir að sjá eftir því, hvort sem þú ert karl eða kona! 

 

Sturluð staðreynd - Hvað er það sem íslenska rallýfjölskyldan vildi vita en veit ekki um Halldóru Rut?

Hm … ég er alveg einstaklega slæm í stærðfræði.  Á ferjuleiðum er Óskar oftar en ekki hlægjandi af mér því ég er í basli með að reikna tímana okkar og hvenær við eigum að vera komin á næsta áfangastað. Svo er ég með 23 tattoo sem kemur fólki stundum á óvart. 

 

Áttu önnur áhugamál en mótorsport? Hver þá? Hefur þú keppt í fleiri íþróttagreinum?

Já eitt af mínum helstu áhugamálum er fótbolti. Mér finnst fátt skemmtilegra en að eyða helgunum í að horfa á enska boltann í góðum félagsskap. Ég er mikið náttúrubarn og hef ánægju af því að ferðast bæði innanlands og utan. Ég keppti í handbolta í langan tíma,  mest fyrir Ármann – Þrótt en líka Val. Ég er skotföst og þótti bara mjög efnileg. Stundum keppti ég með þremur flokkum í einu.  Þetta er góður undirbúningur undir aðrar keppnisgreinar, maður venst því að hafa sjálfsaga og einbeitingu. Það er líka góð æfing að vera hluti af liðsheild og treysta á félaga sína.

 

Hvað er framundan hjá þér og þínum? 

Við þurfum aðeins að fínesera bílinn eftir síðustu keppni og skipta um bensíntank. Svo er það bara að halda áfram að gera okkar besta og njóta sumarsins. 

 

Eitthvað að lokum? 

Takk kærlega fyrir mig og ég vonast til að sjá sem flesta á Sauðárkróki í enda mánaðarins!