Erika Eva Arnarsdóttir verður aðstoðarökumaður hjá Daníel Sigurðarsyni (Danna) í Rallý Reykjavík.
Erika Eva er 15 ára og ljóst að hún á framtíðina fyrir sér. Hún féllst á að svara nokkrum spurningum.
Hver er Erika Eva?
Ég er fædd 10. janúar 2003. Uppalin í Breiðholtinu en bý reyndar núna í Hafnarfirði. Ég á einn lítinn fósturbróður sem fæddist í desember 2017.
Er þetta í fyrsta sinn sem þú tekur þátt í akstursíþróttum?
Þetta er fyrsta keppnin sem ég tek þátt í en ég hef rosalega gaman af því að keyra og ferðast á farartækjum. Reyni t.d. að komast í gokart þegar við erum í útlöndum og hef keyrt hjól, vélsleða og þ.h.
Hefur þú fylgst með akstursíþróttum?
Eðlilega hef ég mest fylgst með þegar Danni og Ásta hafa verið að keppa. Hef ekki fylgst mikið með fyrir utan það en kannski breytist það núna.
Hvernig kviknaði hugmyndin að taka þátt í akstursíþróttum?
Danni bauð mér að koma með og ég var strax mjög spennt fyrir því. Ég verð að viðurkenna að ég hlakka mikið til en er líka smá stressuð.
Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnina? Ertu hjátrúarfull, áttu lukkugripi eða þess háttar?
Ég borða hollt og er alltaf að hreyfa mig. Æfi og keppi t.d. í handbolta. Ætli Danni sé ekki bara lukkugripurinn minn. Hann nær alltaf að róa mig ef ég er stressuð og ég treysti honum mjög vel.
Hverjir eru þínir helstu styrkleikar sem akstursíþróttamaður? Í hverju ertu best?
Það á auðvitað eftir að koma í ljós en ég held að ég sé mjög einbeitt og mér finnst mér hafa gengið mjög vel að setja mig inn í þetta. Held að ég sé fljót að læra. Hef líka verið dugleg að fara yfir nóturnar og æfa mig.
Hvað finnst þér erfiðast? Í hverju felast mestu áskoranirnar fyrir þig persónulega?
Það getur sennilega orðið svolítið erfitt að lesa svona hratt en það hlýtur að koma með æfingunni.
Ertu bílhrædd?
Nei, það get ég alls ekki sagt og það vottar heldur ekki fyrir bílveiki. Mér finnst bara alveg æðislegt að ferðast yfirleitt.
Áttu önnur áhugamál en mótorsport? Hver þá? Hefur þú keppt í fleiri íþróttagreinum?
Já, ég æfi og keppi í handbolta. Svo hef ég mikinn áhuga á myndlist og geri svolítið í því líka.
Að hverju stefnir þú í Rallý Reykjavík?
Við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman og ég mun reyna að standa mig eins vel og ég mögulega get. Auðvitað myndi það ekkert skemma ef við myndum vinna en þetta snýst aðallega um að við skemmtum okkur.
Hvað er framundan hjá þér og þínum?
Ég er að byrja í 10. bekk. Danni hefur verið að hjálpa mér að smíða rallýkrossbíl og ég stefni á að keppa í því næsta sumar, kannski tek ég jafnvel prufu á því í haust. Er ekki ein keppni eftir?
Eitthvað að lokum?
Mig langar bara að þakka Danna kærlega fyrir að treysta mér og gefa mér þetta tækifæri.