Helgina 30.-31. janúar fóru fram tvö digital kappakstursmót í tengslum við Reykjavík International Games íþróttahátíðina.
Á laugardeginum var keppt á hinni sögufrægu Le Mans braut í Frakklandi. 19 ökuþórar frá 4 þjóðum tóku þátt, og óku þeir MLP2 bíl, sem er einn hraðskreiðasti bíll sem hægt er að aka. Ekið var í 60 mínútur og þurftu keppendur að fara í viðgerðarpitt til að taka bensín, og í sumum tilvikum gera við skemmdir á bílum og skipta um dekk.
Lítið sem ekkert var um árekstra milli keppenda þrátt fyrir hreint ótrúlega baráttu milli manna. Karl Thoroddsen náði besta tíma í tímatökum og tók afgerandi forystu í fyrsta hring, hreinlega stakk restina af og hélt forystu sinni til loka keppninnar. Meiriháttar barátta var háð um 2. til 5. sæti og skiptust menn á að taka fram úr keppinautum tvisvar eða jafnvel þrisvar á einum hring.
Beinu kaflar brautarinnar buðu upp á að nota kjölsog keppinauta fyrir framan til að ná að skjótast fram úr.
Kristinn Arnar Hauksson, Högni Ingimarsson og Guðmundur Elíasson háðu frækna baráttu við kempuna Erik Hanoy á síðustu hringjunum. Kristinn Arnar hrifsaði til sín annað sætið eftir einvígi við Högna sem endaði í því þriðja. Erik Hanoy hafði svo betur í baráttunni við Guðmund um fjórða sætið. Guðmundur endaði því í 5. sæti. Hákon Jökulsson endaði í 6. sæti með nokkur gott forskot á Aron Óskarsson sem endaði í 7. sæti þrátt fyrir að hafa hafið keppni aftastur á ráspól.
Allir keppendur eiga hrós skilið fyrir kurteisa og íþróttamannslega keppni.
Á sunnudeginum var svo keyrt á Oulton park brautinni í Bretlandi. Að þessu sinni óku keppendur Mözdu MX5. Þessi bíll er töluvert aflminni en bíllinn sem keyrður var deginum áður er ekki síður snúinn í akstri.
Ellefu keppendur mættu til leiks þetta sinn og voru keyrðar tvær lotur. Tímataka raðaði keppendum á ráspól fyrir fyrstu lotu, en seinni lota var hafin í öfugri röð miðað við niðurstöðu fyrri lotu. Þannig byrjaði fyrst sæti aftast og síðasta sæti fremst. Því þurftu öflugustu ökumenn dagsins að kljást við hægari ökumenn til að ná verðlaunasætum.
Fyrri lotu sigraði Guðmundur Elíasson eftir harða baráttu við Carl Hersoug sem endaði í öðru sæti. Thomas Grendel landaði þriðja sætinu, með nokkuð örugga forystu á Hákon Jökulsson sem endaði í því fjórða.
Í seinni lotu byrjuðu Guðmundur og Carl aftastir en voru fljótir að vinna sig upp í baráttuna um fyrsta sæti enn á ný. Carl sýndi hér stór tilþrif og landaði sigri örugglega með 10sek. forskot á Guðmund sem endaði í öðru sæti í seinni lotu. Karl Thoroddsen lenti í óhappi fyrri lotuna en stimplaði sig inn í keppnina með því að landa 3. sæti í seinni lotu. Hákon Jökulsson tók svo fjórða sæti aftur í seinni lotu.
Þegar stig eru lögð saman eftir tvær lotur kemur í ljós að Carl Hersoug sigrar MX5 keppni RIG21 með 55 stig, Guðmundur Elíasson í öðru sæti með 43 stig og Hákon Jökulsson í þriðja sæti með 24 stig.
Le Mans:
1. sæti - Karl Thoroddsen
2. sæti - Kristinn Arnar Hauksson
3. sæti - Högni Ingimarsson
Oulton Park: (eftir 2 lotur)
1. sæti - Carl Frederik Hersoug
2. sæti - Guðmundur Elíasson
3. sæti - Hákon Jökulsson
Þessar keppnir voru sýndar beint á Stöð 2 e-sport rásinni og á youtube rás Reykjavík International Games. Hægt er að sjá keppnirnar á youtube rás RIG21.
LeMans race
Oulton Park race
Þessi helgi var stórskemmtileg í alla staði og eiga allir sem komu að framkvæmd, dómgæslu og beinni útsendingu hrós skilið.