Um AKÍS

Akstursíþróttasamband Íslands

Akstursíþróttasamband Íslands er eitt af þeim íþróttasamböndunum sem mynda Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ).  Á alþjóðavísu eru einnig móðursamtök AKÍS, Fédération Internationale de l'Automobile (FIA) sem eru einnig aðilar að Alþjóða Ólympíusambandinu (IOC).

AKÍS og akstursíþróttir hafa mikið gildi fyrir samfélagið.

  • Fræða ungmenni - Ungmenni sækja í hraða og spennu og akstursíþróttafélögin bjóða upp á fræðslu um akstur og ábyrgð, stjórnun ökutækja ásamt því að kynnast tækninni sem að baki býr og öðlast þannig mikilvæga færni í almennri umferð og viðhaldi ökutækja.
  • Jafnrétti kynjanna - Þátttaka kvenna í akstursíþróttum hefur verið að aukast hægt og sígandi og um þessar mundir er AKÍS í samstarfi við FIA að vinna í átaksverkefninu “Konur í akstursíþróttum” (“Women in Motorsport - WiM”). AKÍS á nú fulltrúa í WiM nefnd FIA og heldur á árinu 2021 alþjóðlega þing WiM hér á landi.
  • Efling fatlaðra - Þar sem fatlaðir eiga meiri möguleika á þátttöku í akstursíþróttum en mörgum öðrum greinum, hvetur sambandið fatlaða jafnt sem ófatlaða til að taka þátt í keppnum og öðru starfi félaganna.
  • Rafíþróttir - Áhugi á rafíþróttum hefur aukist hratt og AKÍS byrjaði með Íslandsmeistaramót í hermikappakstri á árinu 2019. Þarna er komin frábær leið fyrir unga sem aldna keppendur að taka þátt án mikils kostnaðar.
  • Sjálfbærni - Hröð þróun í rafgeymum og framleiðslu rafbíla hefur endurspeglast í því að AKÍS hélt á árinu 2018 í fyrsta skipti eina umferð í heimsmeistarakeppni FIA í nákvæmnisakstri rafbíla. Keppnin hefur síðan verið haldin hér og vonandi áfram á næstu árum.
  • Tækniþróun og öryggi - Öryggi ökumanna bíla og annarra vegfarenda byggir töluvert á tækni sem þróuð hefur verið í akstursíþróttum undir merkjum FIA.
  • Landkynning - Ekki má vanmeta þá jákvæðu upplifun sem sjónvarpsefni frá akstursíþróttum í stórkostlegri náttúru Íslands gefur erlendu fólki. Hingað streyma keppendur og áhangendur til að taka þátt í torfæru, rally og öðrum keppnisgreinum víðsvegar um landið ásamt ýmsum einstökum keppnistækjum sem hingað koma til kvikmyndagerðar og prufuaksturs.
  • Lyfjaeftirlit - AKÍS hefur þýtt og gefið út bæklinginn “Lyfjamisnotkun - Helstu staðreyndir” með grunnupplýsingum fyrir keppendur.

 

Saga akstursíþrótta á Íslandi

Saga akstursíþrótta á Íslandi nær aftur til þess tíma er fyrsta torfæran var haldin 1965. Bílaklúbbur Akureyrar var síðan stofnaður 1974 og ári síðar var Kvartmíluklúbbur stofnaður. Árið 1975 var fyrsta rallkeppnin haldin af Félagi íslenskra bifreiðaeigenda,  FÍB.  Árið 1977 var Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur stofnaður.

Þann 1. september 1978 var Landssamband íslenskra akstursfélaga, LÍA, stofnað.  Með samþykki og stuðningi FÍB þá samþykkti Alþjóðaakstursíþróttasambandið, FIA, þann 1. október 1992 að LÍA færi með málefni akstursíþrótta á Íslandi.

Akstursíþróttanefnd ÍSÍ/LÍA var sett á laggirnar á vormánuðum árið 2008 eftir að samkomulag Bílaklúbbs Akureyrar, Landsambands Íslenskra Akstursfélaga, Kvartmíluklúbbsins, Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur og Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar var undirritað þann 4. maí sama ár. Markmið nefndarinnar var að koma á fót sérsambandi innan ÍSÍ sem mundi sjá um sameiginlega yfirstjórn yfir akstursíþróttum á Íslandi undir merkjum ÍSÍ og FIA.

Stofnþing Akstursíþróttasamband Íslands var haldið 20. desember árið 2012. Þar var kosin stjórn sambandsins og samþykkt lög þess.

 

Alþjóðasamstarf

AKÍS er fullgildur aðili að FIA, sem er alþjóðlega aksturssambandið.  Sem fullgildur aðili að FIA hefur AKÍS lagt mikla áherslu á öflugt alþjóðlegt samstarf og sérstaklega með samvinnu innan FIA/NEZ sem eru akstursíþróttasambönd innan svæðis Norður Evrópu.

Aðildin opnar möguleika fyrir íslenska akstursíþróttamenn að sækja keppnir erlendis og við getum líka haldið alþjóðlegar keppnir á Íslandi.

 

Kennitala: 530782-0189
Reikningur: 324-26-192

Logo AKÍS (200px):

logo-akis-2016-200

Logo AKÍS (1000px):

logo-akis-2016-hreint