Á Lokahófi Akstursíþróttamanna sem haldið var á Sjallanum Akureyri um helgina voru kynntir Akstursíþróttamenn ársins 2014.
Eftir tilnefningar frá keppnisráðum einstakra greina, netkosningu kaus Formannafundur AKÍS eina konu og einn karl.
Akstursíþróttamaður Ársins 2014 - Konur - Ásta Sigurðardóttir
Akstursíþróttamaður Ársins 2014 - Karlar - Baldur Haraldsson
Hér eru meiri upplýsingar um árangur þessara öflugu keppenda:
Ásta fagnar 25 ára afmæli þessa dagana. Í sínu fyrsta ralli, nýorðin 16 ára, fagnaði hún sigri með bróðir sínum, Daníel. Sú sigurganga hélt áfram hér heima en fljótlega fóru þau systkin að keppa í Bretlandi.
Ásta er tvöfaldur Íslandsmeistari í ralli sem aðstoðarökumaður 2006 og 2007. Sá titill sem vegur e.t.v. hvað þyngst af ferli Ástu er meistaratitillinn í mótaröð sem heitir Evo challenge og var á þeim tíma mjög sterk mótaröð, fullkomlega á heimsmælikvarða. Þetta var árið 2009. Íslendingar hafa unnið til verðlauna á heimsmælikvarða í akstursíþróttum, það er ekkert nýtt. En sjáfsagt hefur engum Íslendingi tekist að ná viðlíka árangri að verða meistari í jafn hátt skrifaðri keppni, Evo challenge og breska meistaramótið eru með stærstu og virtustu mótatöðunum í ralli, næst á eftir WRC og e.t.v Evrópumótinu.
Á sama tíma og Ásta keppti í Bretlandi keppti hún líka í jeppaflokki í ralli hér heima, lengi vel leiddi hún mótið en áherslan var á bresku keppnina og niðurstaðan varð annað sæti í Íslandsmótinu sem ökumaður.
Rallýferill Ástu er saga sigra, en ósigrar hafa líka bankað upp á. Þrátt fyrir einstaka ófarir hefur góða skapið alltaf fylgt henni og hefur hún verið sannur gleðigjafi. Aðrir keppendur, starfsfólk o.fl hafa ekki farið varhluta af því. En þessi geðþekka kona hefur líka fengið sinn skerf af mótlæti. Ástvinamissir bar að rétt í þann mund er hamingjan hafi umvafið hana. Það var mjög erfiður tími en keppnismanneskjan Ásta kunni að standa upp að nýju og sótti sinn styrk m.a. í rallið, og fólkið sitt þar. Góða skapið og geislandi karakterinn sem heillar alla og hefur hrifið marga að akstursíþróttum varð ofan á. Nýjasta dæmið um slíkt er síðasta rallíkeppni sumarsins þar sem Ásta keppti með unnusta sínum sem keppti sína fyrstu rallýkeppni og þar með hefur keppendum fjölgað um einn enn.
Keppnisárið í ár hefur ekki verið Ástu sérlega gjöfult, fyrstu þrjár keppnirnar fóru í súginn þar sem bíllinn bilaði. En hraðinn var til staðar og fjórða keppnin, Rallý Reykjavík, hélt bíllinn og enn einn sigurinn bættist í safnið.
Ásta hefur líka lag á að blanda saman vinnu og áhugamálum. Eldhúsið, og matseld heillaði lengi vel og fór svo að hún kláraði nám sem matsveinn, með fullri vinnu, og starfar nú við fagið.
Fjölmörgum hefur auðnast að vinna glæsta sigra titla á undanförnum árum. En sjálfsagt hefur engum tekist að skilja jafn djúp spor eftir í rallýsögunni og Ástu, og það af góðu einu. Það, ásamt glæstum árangri gerir Ástu að verðugum handhafa nafnbótarinnar, Akstursíþróttakona ársins, og þó fyrr hefði verið.
Fh Keppnisráðs í ralli
Þórður Bragason
Segja má að þar sem tvær bensíngufur koma saman verði að telja líklegt að rekast megi á Baldur Haraldsson.
Baldur er langtíma, alhliða áhugamaður um akstursíþróttir. Fyrst má telja að pilturinn er Snigill nr. 301 og ágætlega virkur sem slíkur. Þeir sem hafa verið á fjöllum á jeppum kunna einnig að hafa rekist á ljóshærðan glaðbeittan náunga, glaðan í bragði og sleðamenn bera einnig kennsl á kappann, sem greinilega má vera úti að leika sér allt árið.
Baldur er sprungulaus Skagfirðingur í báðar ættir. Hann var einn af þeim sem stofnuðu Bifreiðaíþróttaklúbb Skagafjarðar en sá klúbbur var eiginlega forfaðir Bílaklúbbs Skagafjarðar sem stofnaður var 1989 en sá lifir enn við góða heilsu. Þeir sem muna eftir fyrstu rallýkeppnunum, Húsavíkurröllunum og fleiru skemmtilegu, kannast væntanlega við Braga Haraldsson sem gerði garðinn frægan á Lada 1200. Bragi og Baldur eru bræður og fyrir ykkur (og Kára Stefánsson sem er líka að pæla í þessu), þarf auðvitað að rannsaka olíuapagenið sem fyrst!
Baldur hefur í raun ekki langa keppnisreynslu. Hann keppti fyrst í ísakstri hjá Bílaklúbbi Skagafjarðar veturinn 1990 - 1991 og ef til hans náðist fyrir vinnu og öðrum töfum frá alvöru lífsgleði, mætti hann glaðbeittur til starfa við rallýcross, rallý, mótorcross, torfæru, ísakstur, sandspyrnu, Big foot og fleira sem fólki datt í hug að dunda við í Bílaklúbbi Skagafjarðar hér fyrr á tíð. Alltaf klár og léttur í lund. Einnig hefur hann á undanförnum árum setið sem formaður BS ásamt því að sitja í keppisráði í rally. Þar varð hann að víkja sæti þegar að ákveðið var hver yrði útnefndur sem fulltrúi rallsins í vali AKÍS á akstursíþróttamanni ársins.
Hann dró fram ökuhanskana að nýju fyrir aðeins 4 árum síðan og ákvað að keppa í 4x4 non turbo flokki. Þá tók hann sig til og verslaði bíl og hóf keppni með ágætisárangri. Sumum þótti hann aka fullrólega á köflum en ólíkt flestum öðrum keppendum hélt hann sig á veginum öllum stundum á meðan keppinautar hans stunduðu utanvegaakstur með jöfnu millibili. Árið eftir ákvað Baldur að smíða sér betri bíl og það var eins og við manninn mælt, hann mætti í fyrstu keppni á Subaru Impresa sem var vægast sagt til fyrirmyndar og allur frágangur þannig að eftir var tekið. Á öðru ári í keppni var enginn að tala um rólegan akstur lengur, Baldur var að berjast um sigur í sínum flokk en missti reyndar af möguleikanum í lok ársins. Þá tók hann sig til og keypti Subaru Impresa turbo sem hafði staðið ónotaður um skeið. Planið var að prófa bílinn í alvöru keppni um haustið og gera svo gagngerðar endurbætur um veturinn. Þetta plan stóðst fyllilega og Baldur stendur uppi sem sigurvegari sumarsins og Íslandsmeistari í ralli 2014. Þessum árangri hefur hann náð með 4 ára vinnu þar sem hann hefur með markvissum hætti bætt árangur sinn og stefnt að settu markmiði .Athygli vekur að í öllum þessum keppnum hefur hann lokið keppni og staðið í endamarki með óskemmdan bíl, sem er sennilega einsdæmi í íslensku ralli.
Eitt einkennir Baldur öðru fremur. Hann er einstakur vinur, félagi og íþróttamaður í sönnum skilningi þess orðs. Baldur stendur við orð sín og þekkir öðrum fremur sorgir og sigra í akstursíþróttum, sem keppnishaldari á erfiðum stundum og í krefjandi aðstæðum. Baldur er þekktur fyrir lipurð og aðstoð við félaga sína, hvort sem um er að ræða keppnishaldara eða aðra keppendur. Endalaust hefur hann lagt til bíla, vinnuaðstöðu og önnur verðmæti vegna akstursíþrótta sem og stuðning við aðra keppendur. Baldur nýtur hvívetna virðingar fyrir framgöngu sína, samstarf og einstaka aksturs hæfileika, innan vallar og utan. Það er með stolti sem rallarar á Íslandi tilnefna Baldur Haraldsson til sæmdarheitisins ,, akstursíþróttamaður ársins 2014".
PS. Baldur er samt nýfermdur-you ain´t seen nothing yet!
Keppnisráð í rally 2014