Ársþing 2023

21.3.2023

Ellefta ársþing AKÍS var haldið laugardaginn 18. mars 2023 í Íþróttamiðstöðinni Laugardal.

Fyrir lágu hefðbundin ársþingsmál, auk þess sem kynntar voru breytingar á nokkrum reglugerðum AKÍS.

Baldvin Hansson formaður fór í stórum dráttum yfir starfsemi AKÍS frá síðasta fundi auk þess sem Halldór Jóhansson fór yfir reikninga félagsins, sem eftir nokkrar umræður og fyrirspurning voru samþykktir.  Fjárhagsáætlun næsta árs var lögð fram og spunnust um hana fjörugar umræður, sem bæði komu inná fortíð og forsendur hennar.  Eftir að bókanir voru gerðar hvað varðar starfshlutfall framkvæmdastjóra var samþykkt að auka styrki til klúbbanna.  Þó nokkur halli hafi komið fram þá var það auðsæ skoðun fundarmanna að þeir treystu stjórninni til að sjá til þess að fjármálin færu ekki út í einhverja vitleysu.

Kosningar fóru þannig að formaður var kjörinn Tryggvi M Þórðarson og með honum í stjórn eru Aðalsteinn Símonarson, Ari Halldór Hjaltason, Halldór Hauksson, Halldór Jóhannsson, Jón Þór Jónsson og Sigurður Ingi Sigurðsson.  Í varastjórn voru kosnar Kolbrún Vignisdóttir, Linda Dögg Jóhannsdóttir og Hanna Rún Ragnarsdóttir.

Fundarstjóri, Valdimar Leó Friðriksson, bauð í lokin nýkjörnum formanni að ávarpa þingið og slíta því.