Ársþing AKÍS 2017

19.3.2017

Akstursíþróttasamband Íslands hélt ársþing sitt 18. mars 2017.

Tryggvi M. Þórðarson gaf áfram kost á sér sem formaður og var hann sjálfkjörinn. Í stjórn sitja áfram Einar Gunnlaugsson, Sigurður Gunnar Sigurðsson, Jón Bjarni Jónsson, Ragnar Róbertsson og Helga Katrín Stefánsdóttir. Torfi Arnarson var auk þess kosinn til tveggja ára.

Þórður Bragason gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og eru honum þökkuð góð störf í þágu AKÍS og akstursíþrótta.

Í varastjórn voru kosnir Baldvin Hansson, Garðar Þór Garðarsson og Kristinn Snær Sigurjónsson.

Á þingið mættu kjörmenn frá 9 íþróttafélögum sem stunda akstursíþróttir auk fulltrúa frá Ungmennafélaginu Heklu sem stofnuðu akstursíþróttadeild á síðasta ári.

Fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru Hafsteinn Pálsson, sem einnig gegndi starfi þingforseta.

Samþykktar voru nokkrar breytingar á lögum, keppnisreglum og reglugerð um keppnisráð.

Lagðar voru fram og samþykktar eftirtaldar reglugerðir:

  • Reglur fyrir fjölmiðlafólk í aksturskeppnum
  • Reglugerð um áfrýjunardómstól AKÍS
  • Reglugerð um dómnefndir AKÍS
  • Siðareglur um notkun samfélagsmiðla

 

Ársþing AKÍS 2017 samþykkti tvær ályktanir:

  • Konur í akstursíþróttum
    Ársþing AKÍS haldið 18. mars 2017 felur stjórn AKÍS að vinna áfram að aukinni þátttöku kvenna í akstursíþróttum.
    Katrín María Andrésdóttir ásamt hópi áhugasamra kvenna og karla hafa leitt þessa vinnu af röggsemi og hugsjón. Ársþing AKÍS vonar að framhaldið verði jafn farsælt og árangurinn skili sér í fjölgun kvenkyns keppenda, starfsmanna og stjórnenda keppna.
  • Ályktun ársþings AKÍS 2017 um íþróttavegi
    Ársþing AKÍS haldið 18. mars 2017 telur eðlilegt að þeir vegir (eða hluti þeirra) sem notaðir hafa verið til að keppa á í rally, bæði þjóðvegir og sveitavegir, verði skilgreindir sem íþróttavegir og að veitt verði sérstöku fé til viðhalds þeirra. Farið verði með úthlutun fjárins í samræmi við úthlutun Vegagerðarinnar vegna liðarins reiðvegir í Samgönguáætlun.