Akstursíþróttasamband Íslands sendir í fyrsta skipti ungan efnilegan akstursíþróttamann til úrtöku hjá alþjóða akstursíþróttasambandinu FIA.
Baldur Arnar Hlöðversson íslandsmeistari í rally 2014 hefur verið viðriðinn akstursíþróttir frá blautu barnsbeini. Á sautján ára afmælisdegi sínum tók hann þátt í sínu fyrsta rally sem ökumaður!
Baldur tekur þátt í þjálfunar- og úrtaks viðburðinum í Hollandi í lok október .
Ísland sem eitt af rúmlega 140 aðildarlöndum FIA mátti tilnefna einn ökumann til að taka þátt í þessari úrtöku.
Samtals verða 6 úrtökur um allan heim. Einn keppandi frá hverjum viðburði kemst áfram, ásamt 4 „wildcard“ keppendum sem FIA telur hæfa – samtals 10 keppendur. Þessir 10 tryggja sér rétt á fullu námi hjá FIA Instititute: Youth Academy Excellence Program þeim að kostnaðarlausu.
Akademían býður á hverju ári upp á fullkomna þjálfun til að styðja unga ökumenn til frekari frama í akstursíþróttum ásamt því að auka þekkingu á öryggisatriðum og góðum íþróttaanda hvort sem er á braut eða utan. Ökumenn njóta leiðsagnar fyrrverandi Formulu 1 ökumannsins Alex Würz ásamt fyrrverandi WRC meistara aðstoðarökumanna Robert Reid.
Þetta er frábært tækifæri fyrir þennan unga ökumann að fá heimsklassa þjálfun frá alþjóðlegum meisturum ásamt því að hitta unga ökumenn í svipuðum sporum frá öðrum löndum.
Akstursíþróttasamband Íslands óskar Baldri til hamingju með valið og óskar honum velgengni í úrtökunni.
Hér eru þættir sem G7 Racing Team liðið hefur búið til um Baldur:
Ferilskrá Baldurs Arnars Hlöðverssonar
Fimmtán ára gamall byrjaði Baldur Arnar að keppa í rally sem aðstoðarökumaður með pabba sínum, fóru þeir feðgar saman í þrjár keppnir og endaði hann í öðru sæti í eindrifsflokki.
Árið eftir tóku þeir feðgar heilt tímabil saman og enduðu sem Íslandsmeistarar í eindrifsflokki.
Baldur Arnar byrjaði að keppa í rallýkrossi 16 ára gamall og fór í þrjár keppnir, í fyrstu keppninni var hann með yfirburðarforystu og vann einnig hinar tvær.
Á sautján ára afmælisdegi sínum tók hann þátt í sínu fyrsta rally (Rallý Reykjavík) sem ökumaður en í þá keppni fór pabbi hans með honum sem aðstoðarökumaður. Enduðu þeir feðgar í þriðja sæti í nonturbo flokki. Einnig skiluðu þeir þriðja sæti í nonturbo flokki í Íslandsmótinu.
Árið 2012 mætti hann í allar keppnir í Íslandsmótinu og voru þær allar kláraðar nema ein og endaði hann í þriðja sæti í nonturbo flokki það árið til Íslandsmeistara og sjötta sæti í heildarkeppninni.
Á síðasta keppnistímabili tók hann þátt í öllum keppnum Íslandsmótsins og kláraði þær allar nema eina og endaði í öðru sæti í nonturbo flokki til Íslandsmeistara og fjórða sæti í heildarkeppninni.
Þetta keppnistímabil hefur Baldur tekið þátt í öllum keppnum nema einni (þar sem hann var erlendis) það sem af er árinu og hefur hann unnið þær allar í nonturbo flokki og er þegar búinn að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í þeim flokki.