Laugardaginn 12. ágúst 2017 fer fram afmælishátíð Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar en félagið var stofnað árið 2002 og er því 15 ára. Hátíðin fer fram á akstursíþróttasvæði félagsins við Krýsuvíkurveg og opnar svæðið klukkan 15:00.
Dagskrá hefst svo klukkan 15:30 á go kart sýningu en félagar í go kart deild félagsins aka nokkra hringi á brautinni og leika listir sýnar, bílar þeirra verða svo til sýnis á pittsvæðinu og verður hægt að kynna sér starfsemi deildarinnar og ræða við ökumenn og skoða útbúnaðinn.
Næst verða drift þríhjól eða „drift trike“ frá onwheels.is til sýnis en þau eru að hefja sölu á þeim og stendur til að hafa æfingar fyrir þau hjól á brautinni.
Síðan tekur við sýning á þeim tveimur bílum sem Formula Student lið Háskólans í Reykjavík hefur farið með að keppa á Silverstone brautinni í Bretlandi og varð nú á dögunum fyrsta Íslenska liðið til að ljúka keppni og enduðu þau í 15. sæti af 75 skólum en AÍH hefur stutt við bakið á liðinu með því að veita þeim aðgang að brautinni til prófunar á bílunum, liðsherjarnir sitja svo fyrir svörum í pittinum og sýna tækin.
Þá kemur að rótum félagsins en félagar í elstu deild félagsins, Rallycrossdeildinni, munu sýna þá flokka sem keppt er í á braut félagsins, unglingaflokk, 2wd flokk, opnum flokk og krónu flokk. Keyrð verður stutt keppni í hverjum flokk og verða tækin svo til sýnis á pittsvæðinu og verður hægt að kynna sér starfsemi deildarinnar.
Driftdeild félagsins mun svo loka kvöldinu en það er sú deild félagsins sem hraðast hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár, en hún mun kynna þá flokka sem keppt er í hvern fyrir sig en þeir eru minni götubílaflokkur, götubílaflokkur og opinn flokkur. Hægt verður svo að kynna sér muninn á útbúnaði flokkanna og ræða við keppendur og skoða tækin.
Aðal númer kvöldisins er svo drift sýning en þar kemur fram enginn annar en Chris Forsberg, margfaldur Formula Drift meistari og núverandi Ameríku og heimsmeistari Formula Drift, en hann mun spæna upp brautina á Toyota Corolla bifreið Grétars Karlssonar sem þykir einn best útbúni og flottasti driftbíll landsins.
Það er því ljóst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi og má enginn missa af þessum stærsta akstursíþróttaviðburði ársins og er miðasala í fullum gangi á tix.is en miðar verða líka seldir í hliði. Við mælum þó eindregið með að fólk tryggi sér miða í tíma á tix, fyrir frekari upplýsingar bendum við á Facebook síðu Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar.