Fjórhjól og buggy bílar

16.8.2016

Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) og Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands (MSÍ) hafa gert með sér samkomulag um flokkun keppnistækja. Sérstaklega þar sem fjórhjól, sexhjól eða lík keppnistæki keppa.

fjórhjól-buggy

Svo vitnað sé í reglugerð um akstursíþróttir segir svo í fjórðu grein reglugerðar númer 507/2007 með síðari breytingum:

Aksturskeppni er íþróttagrein stunduð á vegum eftirtalinna aðila:
Aðildarfélaga innan Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambands Íslands (MSÍ) vegna keppni á tveggja og þriggja hjóla ökutækjum og torfæruhjólum.
Aðildarfélaga innan Akstursíþróttasambands Íslands/LÍA (AKÍS) vegna keppni á ökutækjum með fjórum hjólum eða fleiri.  

Hefðbundið hefur verið að fjórhjól og sexhjól sem notuð eru til keppni, hafa verið undir lögsögu MSÍ. Nú á seinni árum hefur aukist að fluttir séu inn svokallaðir buggy bílar.  Hvaða nafn sem notað er þá eru þessi tæki líkari bílum að því leiti, að þar eru yfirleitt tvö sæti hlið við hlið, hringlaga stýri og einhvers konar öryggisbúr eða grind utan um ökumannsrýmið.

AKÍS og MSÍ hafa nú, líkt og systursambönd þeirra í mörgum löndum Evrópu, gert með sér samkomulag um það hvernig ákveðið er hvort sambandið fari með lögsögu keppnistækja.  Til samræmis við það hafa stjórnir AKÍS og MSÍ samþykkt sérstaka yfirlýsingu um hvernig skiptingu keppnisgreina verður háttað.

Í stuttu máli má segja að keppnistæki MSÍ séu byggð á vélhjólum eða fjórhjólum og almennt þannig að keppendur sitja ofan á tækinu. Stýrið er hjólastýri (stöng) með handföng báðum megin. Undantekning eru vélsleðar sem eru ekki með dekk heldur belti.

Keppnistæki AKÍS eru aftur á móti byggð á bílum og yfirleitt þannig að keppendur sitja á sæti með bakið inni í tækinu og eru gjarnan með öryggisbúri. Stýrið er hringlaga. Undantekning frá þessu eru GoKart bílar þar sem keppendur sitja ofan á tækinu.

Sjá nánar í hér.

 

Fh. stjórnar AKÍS

Tryggvi M Þórðarson
Formaður AKÍS
Sími: 692 3672

Fh. stjórnar MSÍ

Hrafnkell Sigtryggsson
Formaður MSÍ
Sími: 669 7131