Hver er Hanna Rún Ragnarsdóttir?
Ég er ofvirkur sprelligosi sem kom í heiminn þann 22. desember árið 1994. Ég er þó ekki eini sprelligosinn í fjölskyldunni því foreldrar mínir Helga Margrét og Ragnar gáfu mér líka þrjú yndisleg systkyni þau Vignir Örn , Bjarka Rúnar sem eru eldri en ég og Láru Katrínu sem er yngst.
Ég er þó sú eina úr hópnum sem hefur þennan brjálaða áhuga á bílum og bílaíþróttum.
Í dag bý ég í minni eigin íbúð í Breiðhollti ásamt Skafta Svavari kærastanum mínum og fjórfætlingnum mínum, voffanum Blöncu.
Árið 2016 útskrifaðist ég sem bílamálari. Er reyndar ekki að vinna við það í dag þar sem ég hef verið að fást við veikindi. Ég lenti í bílveltu árið 2012 sem er enn í dag að gera mér lífið leitt þrátt fyrir allskonar hjálp. Glími enn við þessar afleiðingar, líkamlega og andlega, m.a. við áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða. Endurhæfing er því mín megin atvinna um þessar mundir. Þeir sem reynt hafa, þekkja að það getur verið full vinna og meira til.
Einn stærsti kosturinn við rallið er að þegar ég er að keppa get ég gleymt öllum áhyggjum og vanlíðan. Fyrir hverja keppni minni ég mig sjálfa á að nú er tími til að skemmta sér og njóta á meðan ég get. Keppnisskapið hjálpar líka alveg.
Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í akstursíþróttum?
Ég tók þátt í minni fyrstu keppni haustið 2014 sem aðstoðarökumaður hans Baldur Arnars Hlöðverssonar. Við kepptum á Subaru Imprezu Non Turbo. Ég hafði lítið komið nálægt rallinu fyrir þann tíma, fylgdi reyndar þjónustuliðinu hans Baldurs í lok árs 2013 og þar til ég fór að keppa 2014.
Hvað varð til þess að þú fórst inn á þann vettvang og hvernig hefur gengið?
Ég byrjaði að elta rall þegar ég kynntist Baldri árið 2013. Hann var duglegur að útskýra fyrir mér hvernig þetta sport gengi fyrir sig. Árið 2014 gaf hann mér það loforð að ef hann og Guðni (sem var þá aðstoðarökumaðurinn hans) myndu vinna Rallý Reykjavík mætti ég koma sem aðstoðarökumaður með honum í seinasta rallið (Haustrallið).
Okkur Baldri gekk mjög vel í keppninni og vorum í 1. sæti þar til við sprengdum dekk. Þá duttum við niður í 2. sætið. Eftir þessa keppni varð ég ástfangin af sportinu og vildi meira. Eftir smá suð fékk ég að taka þátt með Baldri allt tímabilið 2015 og lönduðum við þar Íslandsmeistaratitli í Non Turbó. Árið 2016 keypti Baldur sér Túrbó bíl og fékk ég eina ferðina enn að fara með. Það ár gekk ekki svo vel enda vorum við bara að læra á bílinn. Árið 2017 eignaðist ég minn eiginn rallýbíl og fór að keyra sjálf. Það gekk heldur misjafnlega þar sem elsku greyið var orðinn frekar þreyttur og lítið sem ekkert power eftir á þeim brúsa. En vá, hvað það var gaman að prufa ökumanns sætið. Árið 2018 átti að vera árið mitt. Ég ætlaði mér að ná langt hér heima , mér var boðið að vera aðstoðarökumaður úti á Írlandi og átti ég að keppa í ökuleikni í Ameríku. Þær áætlanir enduðu uppi á hillu í bili þar sem ég varð ófrísk.
Það var akkúrat þá, þegar ég vissi að ég myndi ekki halda áfram að keppa, sem ég tók að mér að vera keppnisstjóri í Rallý Reykjavík 2018.
Því miður misstum við barnið eftir 12 vikna meðgöngu. Ég ákvað þá að halda mig á hliðarlínunni sem liðstjóri og ætlaði að vera dugleg að styðja sem best við Skafta kærastann minn sem keppir núna á fullri ferð í AB flokknum. Ég tolldi þó ekki lengi á hliðarlínunni og settist aftur í aðstoðarökumannssætið í Hólmavíkurrallinu, annarri keppni ársins sem fram fór í lok júní.
Mér finnst í raun allt hafa gengið vel hjá mér síðan ég byrjaði í ralli . Ég á frábærar minningar og þær halda áfram að týnast inn þrátt fyrir smá leiðindi og bras inná milli. Keppnisskapið er ávallt á sínum stað og ég ber mikla umhyggju og væntumþykju til rallýfjölskyldunnar, eins við köllum þennan hóp sem er í kring um þessa frábæru íþrótt.
Hvernig skiptið þið verkum í rallýliðinu ykkar? Hver gerir hvað? Hvað með störf þín í keppnishaldi?
Ég er rosalega skipulögð varðandi allt sem tengist ralli. Í liðinu sjálfu skiptum við bara niður verkum og hjálpumst að, það er miklu skemmtilegra en að þurfa alltaf að gera sama hlutinn aftur og aftur. Þegar ég skyndilega þurfti að setjast í aðstoðarökumannssætið komu mínar bestu vinkonur til bjargar. Kolbrún tók við liðstjórastarfinu og Arna sá um að við nærðumst vel í keppni, og trúðu mér það er mögulega erfiðasta starfið í þjónustu liðinu að láta þessa ökumenn borða ☺
Störf mín í keppnishaldi voru bara að byrja, ég hef aldrei unnið við rall áður og gerði ég þau skemmtilegu misstök að taka að mér að halda eitt stærsta rallið – sit dag og nótt í því núna ☺
Það að halda keppni krefst þolinmæði, skipulags og skrifa á mörgum tölvupóstum. Ég og Kolbrún erum báðar að skipuleggja þessa keppni og við skiptum verkefnum á milli okkar, hvorug okkar gerir eitthvað meira en hin. Við vinnum sem einn maður.
Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppnir? Ertu hjátrúarfull, áttu lukkugripi eða þess háttar?
Ég reyni að hreyfa mig og borða vel og heilnæman mat fyrir keppni. Það er nauðsynlegt til að hafa góða einbeitingu í því sem ég er að fara að gera. Ég hreinskrifa ALLTAF nóturnar mínar þar sem ég les þær yfir í leiðinni. Ég raða nótublöðunum mínum í fína möppu og hef hana tilbúna í töskunni minni. Fer líka yfir töskuna, hvort nóg sé af pennum ( er mjög dugleg að týna þeim) og hvort það sé ekki allt í röð og reglu. Ég myndi ekki segja að ég væri hjátrúarfull en það má segja að ég eigi mér lukkugripi þar sem þjónustuliðið mitt er. Gott þjónustulið sem stendur fast við bakið á mér og styður mig í öllu sem ég geri. Þjónustulið sem vinnur við bílinn sama hvernig viðrar. Þjónustulið sem passar að ég borði og drekki nóg á keppnum svo ekki líði yfir mig. Þjónustuliðið mitt er minn lukkugripur og væri ég ekki í þessu sporti ef það væri ekki fyrir þau.
Hverjir eru þínir helstu styrkleikar sem akstursíþróttamaður? Í hverju ertu best?
Ég myndi kannski ekki segja að ég væri best í neinu nema kannski klárlega að halda gott partý. Ég hef séð um lokahófið síðustu tvö ár og ég held nú bara að allir hafi gengið út með bros á vör. Ég er líka mjög dugleg að koma mér á framfæri, það er stór kostur.
Hvað finnst þér erfiðast? Í hverju felast mestu áskoranirnar fyrir þig persónulega?
Það sem mér finnst erfiðast í rallýbílnum er að lesa nótur í svarta þoku, það er ákveðin áskorun. En svo er ákveðin áskorun persónulega að halda haus þegar gengur illa.
Hvað finnst þér skemmtilegast / leiðilegast að gera sem snýr að sportinu?
Það skemmtilegasta er félagsskapurinn og auðvitað elska ég ekkert meira en krefjandi leiðir og hvað þá nýjar leiðir. Það sem mér finnst leiðinlegast er að detta út !! Ég get orðið mjög tapsár.
Hefurðu einhvern tímann orðið hrædd í tengslum við mótorsportið?
Ég held bara að ég hafi aldrei orðið hrædd, það hafa komið svona “ó shit” móment en það varir kannski í 10 sekúndur.
Ertu bílhrædd?
Ég var rosalega bílhrædd vegna bílveltu sem ég lenti í árið 2012. Í dag er þetta meira þannig að ég treysti kanski ekki hverjum sem er undir stýri, vil helst bara keyra sjálf í daglegri umferð. Í Rallýbíl er ég svo örugg að það kemur ekki upp vottur af hræðslu hjá mér.
Hefur eitthvað komið þér á óvart í sportinu eftir að þú fórst að taka þátt?
Bara hvað þetta er óeðlilega skemmtileg íþrótt og hvað margt fólk í þessari íþrótt er yndislegt og alltaf til í að hjálpa.
Hvernig finnst þér viðhorfið almennt vera hjá fólki til mótorsports og til þeirra sem það stunda?
Það sem ég hef heyrt eru bara góðir hlutir. Það reyndar kvarta margir undan því að það sé erfitt að horfa á rally en það vonandi batnar með tímanum. En ég held að mótorsportið á Íslandi eigi eftir að ná langt og enn meiri vinsældum einn daginn, eða ég vona það.
Hvað er það skrautlegasta sem þú hefur lent í, í tengslum við sportið, í keppni og þ.h.?
Það er alls ekki eitthvað eitt sem stendur uppúr, þeir sem þekkja mig best vita að líf mitt er almennt frekar skrautlegt.
FIA – Alþjóðaaksturssambandið er nú með sérstakt verkefni í gangi sem miðar að því að kynna og auka hlut kvenna í akstursíþróttum. Hvernig hefur þín upplifun verið í akstursíþróttum á Íslandi? Finnst þér konur eiga með einhverjum hætti erfiðara uppdráttar í sportinu? Eru einhverjar sérstakar hindranir og ef svo er hvernig mætti vinna á þeim?
Úff margt sem ég gæti sagt hér en ætla mér að fara eins fínt í það og ég get. Ég veit að einhverjum getur þótt óþægilegt að ég ræði þessi mál en mér finnst það nauðsynlegt.
Því miður er stundum ótrúlega erfitt að vera kona í mótorsporti. Ég hef stundum virkilega þurft að berjast fyrir minni tilveru þar, sérstaklega fyrst. Ég og stelpurnar sem hafa verið með mér í liðinu hafa stundum mætt lélegri framkomu af hálfu annarra keppenda og liðsmanna, allt frá því að vera ófyndin, leiðileg og niðrandi ummæli yfir í að vera einelti, vanvirðing og kynferðisleg áreitni. Það er auðvitað leiðinlegt þegar það er ekki tekið mark á manni fyrir það eitt að vera kona, en svoleiðis bull læt ég ekki draga mig niður. Einu sinni var ég spurð hvaða tíma við keyrðum yfir ákveðna leið, ég svara því og þá segir einn keppandi: Úff, ég hélt að ég væri að tapa fyrir stelpum! Ég reyni að láta þessa leiðindapésa ekki hafa áhrif á mig, þeir eiga bara bágt og vonandi einn daginn breytast þeir og þessi lélega menning sem tilheyrir mjög litlum hluta af hópnum en viðkomandi hafa ekki enn í dag játað að hafa gert eitthvað rangt eða beðist fyrirgefningar.
Ég ætla samt að taka það skýrt fram að það eru bara örfá skemmd epli sem haga sér svona, meirihlutinn kemur svo vel fram og þykir mér ótrúlega vænt um allan þann stuðning sem við fáum frá þeim.
Annars veit ég ekki nema að við kvennfólkið í akstursíþróttum stöndum saman og hvetjum hverja aðra. Ég stend með öllum stelpum sem keppa í mótorsporti og styð þær allar. Ég hef ekki átt erfitt með að koma mér á framfæri en það er mikil vinna og krefst þolinmæði.
[Innskot blm. Það er skýrt í stefnumörkun Alþjóða aksturssambandsins (FIA), Akstursíþróttasambands Íslands (AKÍS) og Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ), að hvers kyns mismunun, einelti, kynferðisleg áreitni eða önnur óíþróttamannsleg hegðun er ekki liðin. AKÍS hefur undanförnu unnið að gerð aðgerðaráætlunar og á sú áætlun að fara í kynningu í september nk. Þeim sem vilja fylgjast með vinnu við áætlunina eða setja sig í samband við stjórn AKÍS er bent á fundargerðir og upplýsingar á vefsíðunni: www.akis.is ]
Áttu einhver ráð fyrir fólk sem hefur áhuga á mótorsporti en hefur ekki enn slegist í hópinn, og þá ekki síst verðandi akstursíþróttakonur?
Rall er fyrir mér eins og fíkn. Ég á mjög erfitt með að sitja bara og horfa á, um leið og ég finn þessa ákveðnu “rallý lykt” á ég mjög erfitt með að hemja mig. Ég mæli hiklaust með að byrja í hvaða mótorsporti sem er. Ef þú hefur áhuga á að byrja í einhverju þá er það fyrsta sem þú gerir er að skoða reglurnar, fá ráðleggingar hjá þeim sem eru að keppa því það er alltaf einhver sem er til í að hjálpa nýliðum að koma sér áfram. Stelpur þið megið alveg hafa samband við mig ef það er eitthvað, ég er alltaf til í að hjálpa og leiðbeina eins og ég get. Svo auðvitað eru allskonar hópar á facebook sem hægt er að komast í og afla sér upplýsinga.
Sturluð staðreynd - Hvað er það sem íslenska rallýfjölskyldan vildi vita en veit ekki um Hönnu Rún?
Eftir keppnina þar sem kom í ljós að ég var orðin Íslandsmeistari í Non Turbo, það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að fara úr sokkunum og ramma þá inn. Í verðlaunaskápnum mínum eru semsagt Íslandsmeistara sokkarnir ásamt öllum verðlaununum mínum. Ég verð reyndar að játa að ég hef ekki þorað að opna rammann síðan!
Áttu önnur áhugamál en mótorsport? Hver þá? Hefur þú keppt í fleiri íþróttagreinum?
Ég hef mikinn áhuga á hreyfingu og reyni ég að stunda hana eins og ég get. Ég hef keppt í allskonar íþróttagreinum, ég var þó lengst í listskautum og var mjög þekkt fyrir dansinn minn og kjólinn. Ég get alveg viðurkennt það að þá var athyglissýkin í hámarki og var mér alveg sama um einhver verðlaun, ég vildi bara fá fólk til að virkilega horfa og hafa gaman.
Hvað er framundan hjá þér og þínum?
Það sem er framundan hjá mér er að halda eina stærstu keppni ársins Rallý Reykjavík. Þetta er búið að vera heljarinnar vinna og vona ég innilega að hún skili sér og að allir njóti þess. Ég er búin að vera á fullu í undirbúningi ásamt bestu vinkonu minni henni Kolbrúnu Vignisdóttur. Ég get alveg viðurkennt það að það kom tími sem ég var við það að hætta við keppnina. Elsku Kolbrún reif mig upp og erum við búnar að setja upp mjög flotta keppni að mínu mati. Ekki síst miðað við takmarkaða þekkingu á keppnishaldi. Þegar ég fattaði hvað ég var búin að taka að mér fékk ég smá svona “holy shit” móment en tókst að fá Kolbrúnu til að vera með mér í þessu. Ég þurfti samt ekki að suða lengi því auðvitað erum við snilldar teymi í svona verkefni. Það að halda keppni er ákveðin lífsreynsla sem allir þyrftu að prufa. Virðing mín fyrir þeim sem standa í þessu ár eftir ár hefur vaxið rosalega mikið. Já, þetta þyrftu fleiri að prófa.
Eitthvað að lokum?
Mótorsport er fyrir alla !! Stelpur, ekki vera að spá í hvað öðrum finnst eða hika hvort þið eigið að taka skrefið eða ekki ... JUST DO IT. Ég vona að ég sjái sem flesta í Rallý Reykjavík því þessi keppni verður tekin á hærra stig og VÁ hvað við ætlum að skemmta okkur. Ég vil þakka þeim sem ég hef böggað uppá síðkastið varðandi Rallý Reykjavík. Ég vil líka þakka henni Guðnýju Guðmarsdóttur fyrir allar myndirnar og að vera einn stærsti stuðningsklettur Prama Rally Team, okkur þykir mjög vænt um hana og hennar frábæru vinnu.