Hertar reglur stjórnvalda

5.8.2020

Eins og flestir vita hefur heilbrigðisráðherra nú gefið út nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
Auglýsingin tók gildi á hádegi, 31. júlí, og gildir til 13. ágúst.

  • Helstu tilmæli sem snerta akstursíþróttir á þessu tímabili:
    Takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðist við 100 fullorðna.
  • Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga en að sú ráðstöfun verði ekki lengur valfrjáls. Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.
  • Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.
  • Fyrra samkomulag um hvernig keppendur og hans lið telji sem einn aðili er ekki lengur í gildi.

Í ljósi þessara takmarkana hefur Bílaklúbbur Akureyrar ákveðið að fresta Torfærukeppni sem halda átti sunnudaginn 2. ágúst. Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar hefur einnig ákveðið að fresta rallycrosskeppninni 9. ágúst.

Stjórn AKÍS styður þau félög sem ákveða að fella niður keppnir vegna aðstæðna.

ÍSÍ óskaði eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna og fékk rétt í þessu til baka tilmæli um eftirfarandi:

  1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
  2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Stjórn AKÍS fylgist vel með þessum málum og heldur áfram að vinna með stjórnvöldum að öryggi og heilsu landsmanna.

Stjórn AKÍS hvetur keppendur og áhugafólk um akstursíþróttir til að fara eftir tilmælum stjórnvalda um samkomubann, fjarlægðarviðmið og hreinlæti.

Við vonum að keppnishald komist sem fyrst í gott horf.