Hið árlega Rednek bikarmót í rallycross

9.9.2021

Mynd: Heimska.com

Hið árlega Rednek bikarmót í Rallýcrossi fer fram núna um helgina 11. - 12. September.

Ekið er í minningu Gunnars ‘Rednek’ Viðarsonar sem lést langt fyrir aldur fram eftir harða baráttu við krabbamein.

Gunnar átti stóran þátt í því að endurvekja Rallýcrossið árið 2008 og var duglegur í keppnisstarfi sem og að keppa sjálfur. Ekki má gleyma þeim tugum veltibúra sem Gunnar smíðaði í tilvonandi Rallýcrossbíla sem enn margir hverjir eru að keppa í dag.

Rallýcrossið hefur án efa verið langvinsælasta akstursíþróttin í ár enda hefur meðal keppendafjöldi verið um það bil 50. Þar af hafa alltaf mætt 13-16 unglingar í hverja keppni og er því ljóst að Rallýcrossið á bara eftir að vaxa í komandi framtíð.

Til að kóróna tímabilið eru 60 keppendur skráðir til leiks í Rednek mótið, en aldrei hafa fleiri keppt í nútíma Rallýcrossi. Mótið er eina keppni tímabilsins sem ekin er yfir tvo daga.

Þeir sem ekki komast á keppnina geta einnig horft á streymi frá keppninni inni á www.motorsport.is þar sem að Bragi Þórðarson og Ívar Örn Smárason munu lýsa öllu í beinni útsendingu.

Mynd: Hafsteinn Snær Þ.

Mynd: Hafsteinn Snær Þ.

Mynd: Hafsteinn Snær Þ.