Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) og Mótorhjóla & snjósleðaíþróttasamband Íslands (MSÍ) bera ábyrgð á skoðun og umsögn keppnisbrauta viðkomandi íþróttagreina. Við úttektir brauta er stuðst við reglur alþjóðasambandanna FIA og FIM um keppnisbrautir í spyrnukeppnum.
Í úttekt AKÍS og MSÍ á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar (BA) gerðu samböndin athugasemdir við dæld í malbikaðri keppnisbraut í spyrnu rétt fyrir bremsukafla hennar. Bæði íþróttasamböndin voru sammála því að takmarka yrði hraða keppnistækja í endamarki í götuspyrnu við 160 km/klst meðan lægðin er í brautinni. Markmiðið væri að draga úr líkum á slysum á keppendum.
Þrátt fyrir samningaumleitanir til að reyna að ljúka málinu á farsælan hátt, hefur BA ekki sett fram ásættanlegar tímasettar tillögur að úrbótum á brautinni, né sinnt tillögum um leiðir til að draga úr hraða keppnistækja, sem gefa tilefni til breytinga á umsögn. Samböndin lögðu meðal annars til sem málamiðlun að stytta keppnisbraut í götuspyrnu í 150m í stað 200m til að draga úr hraða, en tillögunni var ekki svarað. Ekki er talið forsvaranlegt að veita frest til næsta árs að öllu óbreyttu. Þessi ákvörðun er tekin til að tryggja öryggi keppenda svo sem best má.
Í ljósi þess hvar málið stendur nú hefur umsögn um keppnisbraut í spyrnu á akstursíþróttasvæði BA verið breytt þannig að keppnir í spyrnum á malbiki verða ekki haldnar fyrr en úrbætur hafa verið gerðar.
Eftir sem áður er umsögn sambandanna vegna notkunar malbikuðu brautarinnar fyrir drift og gokart óbreytt.
BA hefur farið fram á að fulltrúar FIM (Alþjóða mótorhjólasambandið) og FIA (Alþjóða akstursíþróttasambandið) verði fengnir til að gera úttekt á brautinni og munu stjórnir sambandanna fjalla um þá beiðni.