Opnað hefur verið fyrir almenna netkosningu sem finna má hér eða neðst í þessari færslu, þar sem allir landsmenn geta greitt atkvæði einu sinni.
Kosið er um þá keppendur sem keppnisráð hefur tilnefnt.
Netkosningu lýkur 22. október, tveimur vikum fyrir Formannafund AKÍS.
Tilnefning frá keppnisráði í Drifti.
Telma Rut Hafþórsdóttir -Drift-Konur
Telma keppti í minni-götubílaflokki og stóð sig frábærlega í öllum keppnum. Hún náði tvisvar á verðlaunapalli, 2. sæti í fyrstu keppni og 1. sæti í þeirri þriðju, eftir að hafa líka verið efst í forkeppninni. Hún er því einnig fyrsta konan til að ná fyrsta sæti í drift keppni hérlendis. Eftir hörkubaráttu í sumar endaði Telma með silfur í Minni-Götubílum á Íslandsmótinu í drifti.
Fabian Dorozinski-Drift-Karlar.
Fabian. Eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í minni-götubílaflokki árið 2021 aðeins 17 ára gamall stökk hann beint í djúpu laugina og keppti í Opnum flokki í ár. Sá flokkur er talinn erfiðastur hérlendis og í honum keppa bestu drift ökumenn landsins. Honum gekk mjög vel á Íslandsmótinu og náði tvisvar á verðlaunapall. Landaði hann 4. sæti í fyrstu keppni ársins, 1. sæti í annarri og 3. sæti í þeirri þriðju, en í forkeppnum allra þriggja var hann efstur. Nýliðinn Fabian, 18 ára gamall á sínu öðru ári í mótorsporti, stóð uppi sem Íslandsmeistari í Opnum Flokki eftir sumarið.
Tilnefning frá keppnisráði í Spyrnu.
Harry Herlufsen
Harry varð íslandsmeistari í spyrnu í T/C flokki á keppnistímabilinu. Hann mætti í allar keppnir í flokknum, bæði fyrir sunnan á Kvartmílubrautinni og fyrir norðan hjá Bílaklúbbi Akureyrar. Hann komst á verðlaunapall í öllum keppnunum og varð í fyrsta sæti í tveimur þeirra. Harry hefur verið viðloðandi spyrnugreinar frá upphafi með bræðrum sínum og hóf síðan keppni sjálfur í lok síðustu aldar. Harry hefur verið ötull félagsmaður frá stofnun Kvartmíluklúbbsins og tekið þátt starfi hans alla tíð.
Tilnefningar frá keppnisráði í Rallycrossi.
Bergþóra Káradóttir -Rallycross-Konur.
Bebbý eins og hún er kölluð, byrjaði að keppa í Rallýcrossi sumarið 2019. Bergþóra byrjaði sinn feril í unglingaflokki og svo færði hún sig yfir í 1000 flokk þegar hún fékk bílprófið árið 2021.
Bergþóra hefur verið að bæta sig jafnt og þétt frá því að hún byrjaði en nú í ár kom hún enn sterkari til leiks og stóð sig mjög vel og var að slást um verðlaunasæti í 1000 flokknum í allt sumar.
Bebbý er með mikla mótorsport dellu og hefur hún einnig verið að keppa í Rallý sem aðstoðarökumaður hjá Sigurði Arnari.
Hennar helsta fyrirmynd í sportinu er stjúp pabbi hennar Henning Ólafsson. Hún stundar nám í Borgarholtsskóla og stefnir á að verða Bílamálari og Bílasmiður. Bergþóra hefur brennandi áhuga á mótorsporti og hefur mikið keppnisskap. Hún stefnir hátt í sportinu og slær ekkert af hvað það varðar.
Bergþóra á svo sannarlega heima í hópi þeirra kvenna sem hljóta tilnefningu sem Akstursíþróttakona ársins 2022
Jóhann Ingi Fylkisson-Rallycross-Karlar
Jóhann byrjaði að keppa í Rallýcrossi sumarið 2020 þar sem hann keppti í 2 keppnum það árið. Jóhann kom á fullum krafti inn í Rallycrossið og byrjaði strax að setja hrikalega flotta tíma í brautinni. Hann hóf sinn feril í unglingaflokki.
Jóhann varð Íslandsmeistari í Unglingaflokki nú í ár þar sem hann var að sýna hrikalega góðan akstur í mjög harðri baráttu sem var í flokknum í sumar enda margir mjög góðir ökumenn að keppa þar enda er Unglingaflokkurinn í Rallycrossi hálfgerð uppeldismiðstöð fyrir Íslenskt mótorsports. Jóhann verður 17 ára nú í desember en hann fékk undanþágu til að keppa í 1000 flokki í REDNEK Bikarmótinu þar sem Jóhanni langaði að fá að reyna sig á móti keppendum sem í mörgum tilfellum eru mun reynslumeiri en hann og gerði hann sér lítið fyrir og sigraði þetta 2ja daga bikarmót.
Jóhann er því bæði Íslands-og Bikarmeistari í Rallycrossi 2022, Íslandsmeistari í Unglingaflokki og Bikarmeistari í 1000 flokki. Jóhann keppti í Rallý sem aðstoðarökumaður árið 2021 hjá Fylki föður sínum.
Jóhann er ekki eingöngu búinn að vera að keyra hratt . Hann er búinn að eyða miklum tíma í að hjálpa við undirbúning á brautinni fyrir keppnir og æfingar. T.d. eyddi Jóhann oft meiri tíma í að undirbúa brautina til hún væri keppnisfær heldur en að undirbúa bílinn sinn fyrir keppnir.
Jóhann er öðru íþróttafólki góð fyrirmynd og vel að því kominn að hljóta tilnefningu sem Akstursíþróttamaður ársins 2022.
Tilnefning frá keppnisráði í Torfæru.
Haukur Viðar Einarsson-Torfæra-Karlar:
Haukur Viðar Einarsson hefur keppt í torfæru í tæp 10 ár.
Hann byrjaði á Taz og mætti svo með nýsmíðaðan bíl Heklu 2017. Síðan þá hefur hann verið að bæta sig sem ökumaður og náði í fyrsta skipti að landa íslandsmeistara tittlinum í ár með 16 stiga forustu. Hann var á verðlaunapalli í öllum keppnum sumarsinns nema einni og sýndi frábær tilþrif.
Ekki bárust fleiri tilnefningar frá keppnisráði í Torfæru..
Tilnefning frá keppnisráði í Rally.
Bergþóra Káradóttir-Rally-Kona:
Bergþóra, eða Bebbý eins og hún er gjarnan kölluð, er aðeins 18 ára en varð Íslandsmeistari aðstoðarökumanna í flokki B á nýliðnu keppnistímabili. Þá varð hún í þriðja sæti til Íslandsmeistara aðstoðarökumanna í heildar stigakeppni allra flokka.
Árið 2021 spurði Sigurður Arnar Pálsson Bebbý að því hvort hún vildi vera aðstoðarökumaður hjá sér í rally og þá varð ekki aftur snúið. Það sumar gekk frekar brösuglega fyrir sig hjá þeim og lét árangur á sér standa. Sumarið 2022 byrjaði hins vegar með látum þar sem þau náðu öðru sæti yfir heildina í fyrstu keppni tímabilsins, Suðurnesjarallyinu, og jafnframt fyrsta sæti í B flokki. Í keppni tvö og þrjú lentu þau í ýmsum bilunum en náðu að klára keppnirnar og safna stigum. Í haustrallyinu, fjórðu og síðustu keppni tímabilsins, náðu þau svo aftur sigri í B flokki og Íslandsmeistaratitillinn var í höfn.
Bebbý stundar nám í Borgarholtsskóla og stefnir á að verða bílamálari og bílasmiður. Hún hefur brennandi áhuga á mótorsporti og hefur mikið keppnisskap. Hún stefnir hátt í sportinu og slær ekkert af hvað það varðar. Þannig tók hún þátt í flestum keppnum Íslandsmótsins í rallycross á þessu ári, líkt og undanfarin ár, með góðum árangri.
Gunnar Karl Jóhannesson-Rally-Karlar:
Gunnar Karl Jóhannesson er Íslandsmeistari í rally árið 2022. Aðeins 26 ára að aldri hefur hann náð því að verða Íslandsmeistari þrjú ár í röð, þ.e. 2020, 2021 og 2022, eitthvað sem fáir leika eftir.
Leiðin að titlinum þetta árið var enginn dans á rósum þar sem vélin í keppnisbílnum sem hann hefur ekið til sigurs undanfarin ár bilaði alvarlega í fyrstu keppni ársins sem olli því að hann komst ekki í endamark og fékk engin stig. Þar sem stutt var á milli keppna tókst ekki að lagfæra vélina í tíma og tvær næstu keppnir ók Gunnar Karl því mun aflminni bíl sem hann leigði í verkefnið. Það kom þó ekki að teljandi sök þar sem hann náði strax góðum tökum á hinum leigða bíl og ók mjög hratt og af öryggi til sigurs í annarri keppninni og endaði í öðru sæti í þeirri þriðju eftir æsilega baráttu um sigurinn. Í síðustu keppni tímabilsins sýndi hann mikla keppnishörku og hæfni, náði öðru sætinu og þar með Íslandsmeistaratitlinum.
Auk þess að hafa keppt hérlendis undanfarin ár hefur Gunnar Karl einnig tekið þátt í rallykeppnum í Bretlandi með góðum árangri. Þannig náði hann 4. sæti í sínum flokki í THE RALLYNUTS STAGES RALLY í Englandi í apríl í ár, einu stærsta og erfiðasta rally á möl þar í landi.
Gunnar Karl er metnaðarfullur ökumaður og leggur sig fram við að hafa bíl sinn og yfirbragð keppnisliðsins snyrtilegt og til fyrirmyndar. Hefur hann og lið hans m.a. verið duglegt að aðstoða aðra keppendur og unga ökumenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni.
Tilnefning keppnisráði í hringakstri.
Gunnlaugur Jónasson-Hringakstur.
Gunnlaugur Jónasson er tilnefndur í kjöri til akstursíþróttamanns ársins 2022 í hringakstri.
Gunnlaugur er Íslandsmeistari í flokki Formúla 1000 kappakstursbíla 2022. Hann sigraði þrjár af þeim fjórum keppnum sem haldnar voru í flokknum í ár. Hann var á ráspól í öllum keppnunum sem hann vann og setti jafnframt besta brautartímann í þeim öllum.
Gunnlaugur hefur sett 18 brautar- og flokkamet á hringaakstursbraut Kvartmíluklúbbsins síðan brautin opnaði árið 2016 og á í dag met í 5 af þeim 10 flokkum sem keppt hefur verið í á brautinni, eða öllum þeim flokkum sem hann hefur keppt í.
Gunnlaugur hefur verið meðal þeirra sem vinna hvað ötulast að framgangi greinarinnar. Hann hefur ekki látið duga að æfa sína grein af mikilli atorku heldur er hann á meðal þeirra sem vinna hvað ötulast að framgangi kappaksturs með sjálfboðstörfum við undirbúning keppnishalds og æfinga.
Gunnlaugur er stöðugt að ýta sjálfum sér og öðrum lengra í sportinu og hefur meðal annars rutt brautina fyrir keppni í opnum kappakstursbílum í sumar með því að flytja inn og hefja æfingar á bíl sem fellur í F1000 flokk á Englandi og hyggur hann á landvinninga fyrir Íslands hönd þar á komandi keppnistímabili.
Tilnefning Stjórnar AKIS.
Birgir Guðbjörnsson-Rally og Rallykross
Stjórn Akstursíþróttasambands Íslands tilnefnir ökumanninn Birgi Guðbjörnsson til Akstursíþróttamanns ársins. Birgir var öflugur keppandi á keppnistímabilinu þar sem hann tók þátt í tveimur akstursíþrótta greinum.
Birgir tók þátt í heilu keppnistímabili í rallycrossi. Birgir ákvað að keppa í tveimur keppnisflokkum bæði 2000 flokki og opnum flokki. Í 2000 flokknum landaði hann Íslandsmeistaratitlinum. Ásamt því að verða í öðru sæti til Íslandsmeistara í opna flokknum.
Birgir tók einnig þátt í Rally og keppti hann einnig heilt keppnistímabil í AB Varahlutaflokknum, þar var Birgir í harðir baráttu um Íslandsmeistaratitilinn en náði þó ekki að landa þeim titli því varð annað sætið hans.
Birgir á svo sannarlega skilið að hljóta tilnefninguna Akstursíþróttamaður ársins 2022.
Ekki bárust fleiri tilnefningar.