Opnað hefur verið fyrir almenna netkosningu sem finna má hér eða neðst í þessari færslu, þar sem allir landsmenn geta greitt atkvæði sitt einu sinni.
Kosið er um þá keppendur sem keppnisráð hefur tilnefnt. Netkosningu lýkur á miðnætti 1. nóvember n.k.
Tilnefning frá keppnisráði í Drifti.
Fabian Dorozinski-Drift-Karlar.
Fabian hefur haft mikinn áhuga á Drifti frá ungum aldri, en hann byrjaði að fylgjast með drift keppnum 10 ára. Fabian fékk sinn fyrsta Drift bíl 16 ára gamall og ákveður að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu í Drifti um leið og hann fengi bílprófið. Sama dag og hann fær prófið mætir hann á driftkeppni og vinnur sína fyrstu keppni þá helgi, þetta var fyrsti sigur af mörgum því 17 ára gamall nær hann að tryggja sér íslandsmeistaratitilinn árið 2021.
Árið 2022 var ákveðið að hoppa beint upp í Opna Flokkinn. Annað árið sitt í röð sem nýliði í sínum flokki tryggir hann sér íslandsmeistaratitil.
Árið 2023 gekk frábærlega eins og árin áður fyrir Fabian en hann nær að tryggja sér sigur í þremur af fjórum keppnum og þriðja sæti í einni þeirra en veiðir þannig Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er því þriðja árið í röð sem hann er íslandsmeistari og annað árið í röð í Opna Flokki (fyrstur að gera það í Opna Flokknum!).
Í lok sumars ákveður hann svo að fara keppa út í Póllandi til þess að reyna að "koma sér á kortið" í Evrópu. Honum gengur mjög vel en þarf að enda keppnina snemma því hann brýtur drifbúnað í bílnum og nær ekki að laga hann í tæka tíð. En árið 2024 mun hann halda áfram að keppa í Evrópu.
Tilnefning frá keppnisráði í Spyrnu.
Einar Rafn Einarsson-Spyrna-Karlar.
Einar Rafn hóf ferilinn árið 2021, þá aðeins 18 ára. Hans fyrsta keppni var jafnframt fyrsta keppni Bílaklúbbs Akureyrar á nýrri braut.
Einar hefur bæði tekið þátt í íslands og bikarmóti í spyrnu síðustu þrjú ár og átt góðu gengi að fagna með bættum árangri nánast í hverri ferð. Hann varð bikarmeistari BA 2022 í t/e flokki. Í ár færði hann sig upp í t/d flokkinn og landaði þar bæði íslandsmeistara- og bikarmeistaratitli BA.
Tilnefningar frá keppnisráði í Rallycrossi.
Karítas Birgirsdóttir-Rallycross-Kona
Karítas Birgirsdóttir er 16 ára Hafnarfjarðardama og stundar nám við Flensborgarskóla. Karítas byrjaði að keppa í Rallýcrossi árið 2022.
Það var ótrúlega gaman að fylgjast með Karítas í Rallýcrossinu frá byrjun því að bætingin á milli keppna var þvílíkt mikil fyrsta árið hennar og nú í ár hefur hún haldið sama striki með stöðugum bætingum og er hún orðin hreint ótrúlega flottur ökumaður. Karitas tók þátt í öllum þeim keppnum sem í boði voru í Rallycrossi í ár.
Karítas er dóttir Birgis Kristjánssonar sem einnig er að keppa í Rallýcrossi og er gaman að sjá hvað Karítas og foreldrar hennar eru metnaðarfull í Rallýcrossinu og gefa ekkert eftir. Karítas á svo sannarlega heima í hópi þeirra kvenna sem hljóta tilnefningu sem Akstursíþróttakona ársins 2023.
Tilnefningar frá keppnisráði í Hringakstri
Bragi Þór Pálsson-Hringakstur-Karl.
Bragi hefur tekið virkan þátt í starfinu í sumar, lagt sig fram um að draga aðra að því, verið til fyrirmyndar í framkomu innan brautar sem utan og lagt sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að kynningu á íþróttinni. Hann verður krýndur Íslandsmeistari í kappakstri 2023 eftir frábæran árangur á keppnistímabilinu þar sem hann keppti í Formula 1000 flokki og sigraði 3 af 4 keppnum sem hann tók þátt í.
Tilnefningar frá keppnisráði í Torfæru.
Skúli Kristjánsson-Torfæra-Karl.
Skúli Kristjánsson er búin að vera í toppbaráttu alla tíð frá því hann hóf sinn keppnisferilinn með sigri í sinni fyrstu keppni árið 2016 og annarri keppni árið 2017, báðar í götubílaflokk. Skúli færði sig yfir í Sérútbúin flokk á árinu 2019 þar sem hann varð NEZ meistari ama ár. Hann var kosinn nýliði ársins 2019 og árið 2020 varð hann svo annar til Íslandsmeistara. Það var svo árið 2021 að hann náði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli. Árið eftir varð hann í 3. sæti til íslandsmeistara en náði hinsvegar að verða NEZ meistari annað sinn á ferlinum.
Í ár tókst Skúla að verða Íslandsmeistari í annað sinn, þrátt fyrir að baráttan hafi líklega aldrei verið harðari. Skúli er fyrirmyndar keppandi í alla staði, sem sýnir af sér íþróttamannlega framkomu bæði á og utan keppnistaðs. Hann er iðin við að aðstoða aðra keppendur sér í lagi nýliða bæði með því að miðla reynslu sinni sem og við smíðar á nýjum keppnistækjum.
Tilnefningar frá keppnisráði í Rally.
Heiða Karen Fylkisdóttir-Rally-Konur.
Heiða Karen er alin upp í kringum akstursíþróttir og á ekki langt að sækja áhugann þar sem móðurafi hennar var einn af stofnendum Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur (BÍKR) og móðir hennar, Linda Dögg Jóhannsdóttir, er formaður Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar (AÍH).
Heiða Karen hóf keppni árið 2018 í unglingaflokki í rallýcrossi, þá aðenis 15 ára gömul. Sumarið 2020 tók Heiða Karen þátt í Íslandsmeistaramótinu í rallý sem aðstoðarökumaður föður síns og var það hennar fyrsta keppnisreynsla í rally. Urðu þau það ár fyrstu feðginin til að vinna rallykeppni yfir heildina hérlendis með sigri í Haustrallyinu og þar með búin að skrá nöfn sín á blöð íslenskrar akstursíþróttasögu.
Árið 2023 ákvað hún hins vegar að fara með bróður sínum sem aðstoðarökumaður og kepptu þau í öllum keppnum sumarsins og lönduðu Íslandsmeistaratitli í flokki B. Bróðir Heiðu er aðeins 17 ára og komst Heiða þar með aftur í sögubækurnar en nú sem yngsta áhöfn sem keppt hefur saman í rally. Nú er stefnan sett á Cambrian rallyið sem haldið er í Bretlandi nú í október.
Heiða Karen þekkir íþróttalífið úr fleiri áttum, þar sem hún hefur aðstoðað móðir sína við skipulagningu á rallycross keppnum. Hún gerir ríkar kröfur til sín og hefur keppnisskap og metnað til að gera sífellt betur. Hún er glaðlynd, jákvæð og alltaf tilbúin að leggja gott til. Heiða Karen er afar efnilegur keppandi, góð fyrirmynd og á svo sannarlega heima í hópi kvenna sem hljóta tilnefningu sem akstursíþróttakona ársins 2023.
Gunnar Karl Jóhannesson-Rally-Karl.
Á keppnistímabilinu náði Gunnar Karl, ásamt aðstoðarökumanni sínum Ísaki Guðjónssyni, þeim frábæra árangri að sigra í öllum fimm keppnum sem giltu til Íslandsmeistara, og vera einnig með besta tíma á Ofurleiðinni í hverri keppni. Enduðu þeir því með fullt hús stiga, en það hefur einungis gerst einu sinni áður í rúmlega 50 ára sögu rally á Íslandi, og var það fyrir rúmum 40 árum! Er þetta fjórða árið í röð sem þeir félagar hampa Íslandsmeistaratitlinum, sem einnig er jöfnun á besta samfellda árangri í rally hérlendis.
Lykillinn að árangri fyrir Gunnar Karl hefur góður undirbúningur, bæði varðandi aksturinn og ekki síður bílinn, en bilanir voru afar fáar og ekki alvarlegar, þrátt fyrir mikinn hraða og samsvarandi álag. Einnig hefur Gunnar Karl lagt mikla áherslu á að hafa keppnisbílana sína snyrtilega og vel útlítandi, sem og allt keppnisliðið.
Gunnar Karl keppti tvisvar í rally á malbiki á Írlandi á árinu með ágætum árangri, auk þess sem hann hefur miðlað af reynslu sinni til yngri systur sinnar með því að þjálfa hana og aðstoða við keppni í rallycrossi.
Tilnefning Stjórnar AKIS.
Ísak Guðjónsson–Rally-Karl.
Ísak Guðjónsson er Íslandsmeistari í rally árið 2023 sem aðstoðarökumaður. Saman með ökumanninum Gunnari Karli Jóhannessyni náði Ísak þeim frábæra árangri að sigra í öllum fimm keppnum sem giltu til Íslandsmeistara í ár, og vera einnig með besta tíma á Ofurleiðinni í hverri keppni. Enduðu þeir því með fullt hús stiga, en það hefur einungis gerst einu sinni áður í rúmlega 50 ára sögu rally á Íslandi, og var það fyrir rúmum 40 árum! Er þetta fjórða árið í röð sem þeir félagar hampa Íslandsmeistaratitlinum, sem einnig er jöfnun á besta samfellda árangri í rally hérlendis.
Ísak tók fyrst þátt í rally árið 1993, eða fyrir 30 árum, og hefur síðan þá tekið þátt í yfir 130 keppnum bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur unnið til samtals níu Íslandsmeistaratitla og sigrarnir í Rally Reykjavík, lengstu og erfiðustu rallykeppni ár hvert hér á landi, eru orðnir átta.
Þessum árangri hefur Ísak náð með mikilli fagmennsku og metnaði fyrir sínu hlutverki sem aðstoðarökumaður. Hann er alltaf vel undirbúinn og einnig tilbúinn að leggja sitt að mörkum til að styðja við uppbyggingu íþróttarinnar með þátttöku í félagsstörfum og keppnishaldi.