Stjórn AKÍS hefur nú samþykkt styrkveitingar til aðildarfélaga
AÍFS, BS, BÍKR vegna kaups á tímatökubúnaði fyrir Rally - 750.000
Akstursíþróttafélag Suðurnesja, Bílaklúbbur Skagafjarðar og Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur hafa tekið saman höndum og eru að vinna í að koma rafrænum tímatökubúnaði í Rallý keppnir hérlendis.
Rallakstur er frábrugðinn ýmsu öðru keppnishaldi. Keppnin fer annars vegar fram á ferjuleiðum, þar sem keppendur fara um þjóðvegi í almennri umferð (ferjuleiðir) og ber þeim að virða allar umferðareglur sem þar gilda. Hins vegar fer fram keppni á sérleiðum. Þá er veginum lokað fyrir almennri umferð og lögreglustjóri veitir undanþágu frá ákvæðum um hámarkshraða. Þar gildir að aka sem hraðast og nauðsynlegt því að tímataka sé nákvæm og aðstæður eins öruggar og hægt er að bjóða.
Með kaupum og innleiðingu á rafrænum tímatökubúnaði þarf að koma fyrir búnaði í hverjum bíl en búnaðurinn gefur mjög fjölbreytta möguleika til að mæla tíma, vegalengdir með gps tækni og fylgjast með af mikilli nákvæmni. Þannig er einnig hægt að vara keppendur við ef stefnir í framúrakstur, óhöpp eða slys ber að höndum eða láta vita ef annar keppandi hefur stöðvast en þarfnast ekki aðstoðar.